Enski boltinn

„Verðum bara að sjá hvert næsta skref verður“

Aron Guðmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir, atvinnu- og landsliðskona í fótbolta
Dagný Brynjarsdóttir, atvinnu- og landsliðskona í fótbolta Vísir/Getty

Knatt­spyrnu­konan Dag­ný Brynjars­dóttir, leik­maður West Ham á Eng­landi, er byrjuð að leggja grunnin að endur­komu sinni inn á knatt­spyrnu­völlinn eftir barns­burð. Þar byggir hún á reynslu sinni frá fyrri tíð. 

Dag­ný og eigin­maður hennar Ómar Páll Sigur­bjarts­son eignuðust sinn annan son saman fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Í gegnum með­gönguna hefur Dag­ný fengið mikinn stuðning frá fé­lags­liði sínu, West Ham United sem spilar í efstu deild Eng­lands og er Dag­ný nú farin að taka fyrstu skref sín í átt að endur­komu.

„Ég var að klára viku fjögur í svona heima­styrk og byrjaði að koma mér aftur af stað eftir að ég fæddi seinni strákinn. Ég er að æfa að­eins réttara og betur eftir með­göngu heldur en var raunin hjá mér fyrir tæpum sex árum síðan þegar að ég átti fyrsta barn mitt og Ómars, hann Brynjar Atla.

Við fjöl­skyldan munum halda aftur út til Eng­lands í apríl. Ég er náttúru­lega enn á samningi hjá West ham en sá samningur rennur út eftir yfir­standandi tíma­bil. Þá verður bara að koma í ljós hver næstu skref hjá okkur verða.“

Dag­ný, sem hefur verið stuðnings­maður West Ham frá því í æsku, er nú ein af leið­togunum í liðsins og var fyrir­liði þess áður en hún hélt í barn­eignar­leyfi. Hamrarnir vilja því skiljan­lega ólmir fá hana aftur og það sem fyrst.

„Draumurinn hjá West Ham er að ég nái ein­hverjum mínútum innan vallar með liðinu fyrir lok tíma­bils. Ég ætla hins vegar ekki að setja neina pressu á sjálfan mig að ná því. Ég gerði það eftir fyrri með­gönguna og er búin að á­kveða að ætla ekki að gera það núna. Auð­vitað væri draumur að ná kannski nokkrum mínútum innan vallar í síðasta leik tíma­bilsins gegn Totten­ham.

Þá er yngsta barnið okkar bara þriggja og hálfs mánaðar gamalt og því enn mjög ungur. Í þessum leik gegn Totten­ham á erum við hins vegar að fara spila Totten­ham Hotspur leik­vanginum. Auð­vitað yrði það skemmti­legur leikur að ná en ég ætla ekki að setja neina pressu á mig. Ég ætla að vera skyn­söm því fram­undan er sumarið sem ég get notað í að æfa vel og byggja mig upp. Svo verðum við bara að sjá hvert næsta skref verður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×