Aðalfundur Samtakanna ’78 fór fram um helgina. Rúmlega sextíu félagar sátu fundinn. Fyrir fundinum lágu fjöldi mála og m.a. var ný stjórn kjörin.
Ásamt Bjarndísi Helgu voru þau Vera Illugadóttir, Sveinn Kjartansson, Hannes Sasi Pálsson og Hrönn Svansdóttir kjörin í stjórn. Stjórn mun skipta með sér frekari embættum á fyrsta stjórnarfundi sínum.
„Nú styttist óðum í hálfrar aldar afmæli Samtakanna, hálf öld af sýnileika, og eitt af stóru verkefnum félagsins á næstunni verður að finna leiðir til þessa að safna þeirri sögu saman og gera henni skýr skil. Það er mikilvægt að við hefjum undirbúning fyrir afmælisárið strax,“ sagði Bjarndís Helga í ræðu sinni.
Landsþing samtakanna fór fram á laugardaginn sem bar yfirskriftina „samtal við söguna“.
„Saga og menning er ekki bara mikilvæg til geymdar heldur trúi ég því að með því að fara í markvissa vinnu með sögu okkar náum við enn betur að tengja saman kynslóðir innan samfélagsins, nú þegar í fyrsta sinn í sögu Íslands er stór hópur af eldra fólki sem lifir úr felum með sína kynhneigð og kynvitund. Það er sögulegt á svo stórum skala að ég held að við náum ekki alveg utan um það á þessum augnabliki. – Það fyllir mig ólýsanlegu þakklæti þegar ég hugsa til þess að þetta er sama fólkið og ruddi brautina með því að stíga ólýsanlega erfið en mikilvæg skref og tók við mótbyrnum sem í upphafi var svo mikill.“