Á þessu ári eru 150 ár síðan fyrstu innlendu reglurnar um fyrirtæki í fjármálaþjónustu voru settar hér á landi með tilskipun Kristjáns IX. Þær báru heitið tilskipun um hlunnindi nokkur fyrir sparisjóði á Íslandi, enda voru fyrstu innlendu fjármálafyrirtækin, sparisjóðirnir, að verða til á þessum árum. Það fór vel á því að konungur birti tilskipunina sama dag og hann staðfesti fyrstu stjórnarskrá Íslendinga, 5. janúar 1874, enda er skilvirk og örugg fjármálastarfsemi, líkt og stjórnarskrá, ein af þeim grunnstoðum sem nútíma þjóðfélög byggja á.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag þurfa fjármálafyrirtæki ekki síður en viðskiptavinir þeirra að uppfylla mun fleiri og víðfeðmari kröfur flókins regluverks en í árdaga sparisjóðanna, enda komst tilskipun konungs fyrir á einni blaðsíðu.
Nýjar reglur í hverri viku
Umfang innleiðingar Evrópureglna sem tengjast fjármálamörkuðum hefur aukist stórkostlega á undanförnum árum. Fram hefur komið opinberlega af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að á árunum 2018 til 2023 hafi nærri 700 slíkar reglur tengdar fjármálamörkuðum verið innleiddar í EES-samninginn eða að jafnaði um 140 á ári hverju. Frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 fram til ársins 2018 voru innleiðingar reglna um fjármálamarkaði 196 eða innan við tíu á ári að jafnaði.
Afar langt er gengið í takmörkunum á heimildum fjármálafyrirtækja til að greiða starfsmönnum sínum kaupauka hér á landi og hefur það áhrif á rekstrarskilyrði bæði stærri og minni fjármálafyrirtækja, dregur úr sveigjanleika þeirra í rekstri og þar með samkeppnishæfni.
Algeng leið við innleiðingu evrópska regluverksins um fjármálastarfsemi hér á landi er með birtingu reglna og viðmiða af hálfu Fjármálaeftirlits Seðlabankans sem vísar jafnan á mun ítarlegri lög og reglur sem settar hafa verið á vettvangi ESB eða evrópskra eftirlitsstofnana. Samkvæmt nýútkomnu ársriti Fjármálaeftirlits Seðlabankans birti Fjármálaeftirlitið 42 nýjar reglur, 18 viðmiðunarreglur og eitt viðmið á síðasta ári og auk þess að Alþingi samþykkti 11 ný lagafrumvörp tengd fjármálamörkuðum. Þegar allt er talið eru þetta um 70 laga- og reglubreytingar um starfsemi fjármálafyrirtækja á síðasta ári, eða meira en ein á viku að jafnaði.
Hætta á að skógurinn týnist fyrir trjánum
Það gefur auga leið að það útheimtir umtalsverðan kostnað og fyrirhöfn fyrir fjármálafyrirtæki að framfylgja þessu mikla magni flókinna reglna og það bitnar ekki síður á viðskiptavinum sem klóra sér í kollinum yfir ýmsum reglum og eyðublöðum þegar þeir sækja sér fjármálaþjónustu. Og á sama tíma vex eftirlit og kostnaður því tengdur í sambærilegum hlutföllum.
Hið evrópska laga- og regluverk um fjármálastarfsemi er orðið það viðamikið að stjórnendur fjármálaeftirlitastofnana í mun fjölmennari Evrópuríkjum en Ísland er, hafa sagt að veruleg hætta sé á að skógurinn týnist fyrir trjánum. Of mikill tími fara í að að tikka í box og hætt sé við að það gleymist af hverju reglurnar voru settar í upphafi.
Séríslenskar reglur kosta þjóðfélagið
Í þessu samhengi þarf að hafa í huga að íslensk fjármálafyrirtæki eru afar smá samanborið við það sem þekkist víðast í Evrópu. Taka þarf tillit til þess við innleiðingu á regluverki fjármálamarkaðar og í eftirliti. Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) eru ekki á móti eftirliti, enda er eftirlit með fjármálafyrirtækjum nauðsynlegt til að stuðla að fjármálastöðugleika og gæta hagsmuna viðskiptavina á fjármálamarkaði. En það er eðlilegt að beita áhættumiðuðu eftirliti með hliðsjón af hlutfallsreglu m.a. með tilliti til stærðar og eðlis fjármálafyrirtækisins og þeirrar þjónustu sem það veitir. Það er mikilvægt að hafa þetta alltaf í huga við innleiðingu Evrópureglna í íslenskan rétt.
Hið evrópska laga- og regluverk um fjármálastarfsemi er orðið það viðamikið að stjórnendur fjármálaeftirlitastofnana í mun fjölmennari Evrópuríkjum en Ísland er, hafa sagt að veruleg hætta sé á að skógurinn týnist fyrir trjánum.
Það er full ástæða til að skoða núgildandi regluverk á fjármálamarkaði hér á landi með tilliti til þessa og meta sérstaklega hvort hægt væri að draga úr kröfum með hliðsjón af því. Þannig er mikilvægt að gera hlutina ekki flóknari en ástæða er til með séríslenskum reglum til viðbótar við Evrópuregluverkið. Engin ástæða er til að flækja enn frekar það sem flókið er.
24 ábendingar um íþyngjandi gullhúðun
SFF hafa ítrekað í gegnum árin bent á það að íslensk stjórnvöld gangi oft lengra en regluverk EES-samningsins mælir fyrir um. Samtökin sendu á dögunum ábendingar um 24 atriði í íslenskri löggjöf þar sem gengið er lengra í lögum um fjármálamarkaði en Evrópureglur gera ráð fyrir. Þar er ekki um tæmandi talningu að ræða.
Það vekur athygli að lagareglur um varnir gegn peningaþvætti eru í ýmsum atriðum strangari hér á landi en Evrópureglur mæla fyrir um án þess að það hafi verið rökstutt af hverju Ísland þurfi að vera með strangari reglur. Þetta býr til aukið flækjustig sem skapar ákveðna áhættu í kerfinu auk viðbótarkostnaðar. Þá er gengið lengra hér á landi en EES-löggjöf mælir fyrir um hvað varðar skoðun á fjárhag lántaka áður en lán er veitt, þ.e. krafist er að banki geri bæði greiðslumat og lánshæfismat á lántaka. Það býr til flækjustig og óhagræði fyrir viðskiptavini þegar þeir taka lán. Þá er afar langt gengið í takmörkunum á heimildum fjármálafyrirtækja til að greiða starfsmönnum sínum kaupauka hér á landi og hefur það áhrif á rekstrarskilyrði bæði stærri og minni fjármálafyrirtækja, dregur úr sveigjanleika þeirra í rekstri og þar með samkeppnishæfni.
Gleðiefni ef undið verður ofan af gullhúðun
Það er því mikið gleðiefni að utanríkisráðráðherra hafi skipað starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun Evrópureglna. Mikilvægt er að vel takist til í þeim efnum og má annars vegar horfa til þess að nýta undanþáguheimildir í Evrópulöggjöfinni þar sem þær eru að finna og hins vegar einfalda þær reglur sem fyrir eru þar sem það er mögulegt.
Það vekur athygli að lagareglur um varnir gegn peningaþvætti eru í ýmsum atriðum strangari hér á landi en Evrópureglur mæla fyrir um án þess að það hafi verið rökstutt af hverju Ísland þurfi að vera með strangari reglur.
SFF eru fylgjandi því að hér á landi starfi fjármálafyrirtækin undir alþjóðlega viðurkenndu regluverki sem stuðlar að heilbrigðu fjármálaumhverfi og byggir um leið undir traust á starfseminni. En það eru engin efnisleg rök fyrir því að við í okkar litla hagkerfi búum við þrengri og stífari reglur sem auka flækjustig og þannig frekari áhættu og kostnað við að veita landsmönnum trausta fjármálaþjónustu.
Hafa verður einnig í huga að þegar auknar byrðar leggjast á íslensk fyrirtæki í samanburði við sambærileg fyrirtæki í samkeppni erlendis frá, þá kemur það niður á samkeppnishæfni íslensku fyrirtækjanna og þar með niður á viðskiptavinum þeirra og neytendum.
Heiðrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) og Jóna Björk Guðnadóttir er yfirlögfræðingur SFF.