Erlent

Ráðist á vopna­bróður Naval­nís með hamri

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Navalní og Volkov hafa báðir talað gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta og stjórnvöldum hans. Volkov er nokkuð lemstraður eftir árásina.
Navalní og Volkov hafa báðir talað gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta og stjórnvöldum hans. Volkov er nokkuð lemstraður eftir árásina.

Ráðist var á Leonid Volkov, sem var lengi vel bandamaður Alexeis Navalnís, fyrir utan heimili hans í Vilníus, höfuðborg Litáen, í kvöld.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins, þar sem fram kemur að árásarmaðurinn hafi beitt hamri og táragasi á Volkov, sem sat í bíl fyrir utan heimili sitt. Lögregla rannsakar nú málið en ekki er vitað hver var að verki, né hver ástæða árásarinnar var.

Volkov, sem starfaði meðal annars sem starfsmannastjóri Navalnís í rússnesku forsetakosningunum árið 2018, hefur ekki farið til Rússlands um árabil, þar sem hann á yfir höfði sér ýmiskonar ákærur vegna andófs við ríkjandi stjórnvöld í Rússlandi. Navalní sjálfur lést í fangelsi í Rússlandi í síðasta mánuði, en hann var þekktasti og háværasti andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Annar bandamaður Navalnís, Ivan Zhdanov, birtir myndir af áverkum Volkovs á samfélagsmiðlum. Þar má sjá stærðarinnar mar á enni hans, en hann leitaði læknisaðstoðar á spítala eftir árásina. Zhdanov segir einsýnt að andóf Volkovs gegn Pútín sé ástæða árásarinnar.

„Auðvitað er þetta augljós pólitísk árás, það er ekki nokkur vafi um það,“ hefur BBC eftir honum.


Tengdar fréttir

Navalní borinn til grafar

Jarðarför helsta andstæðings Rússlandsforseta Vladimírs Pútín fer fram í Moskvu höfuðborg Rússlands í dag. Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan kirkjuna þar sem athöfnin fer fram í suðausturhluta Moskvu í hverfinu Maryino, þar sem Navalní átti áður heima.

Einn helsti mannréttindafrömuður Rússlands dæmdur í fangelsi

Oleg Orlov, einn fremsti mannréttindafrömuður Rússlands, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi af dómstóli í Moskvu. Hinn sjötugi Orlov var dæmdur fyrir að „vanvirða“ rússneska hersins ítrekað með því að lýsa yfir andstöðu við innrásina í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×