Flugvél FarCargo, dótturfélags fiskeldisrisans Bakkafrosts, lenti í fyrsta sinn í Færeyjum fyrir rúmri viku og var komu hennar þá fagnað með viðhöfn. Hún flaug síðan með fyrsta farminn, ferskan eldislax, til New York með millilendingu í Keflavík. Í staðinn fyrir að hefja reglubundið vöruflug var henni flogið til Billund í Danmörku þar sem hún hefur staðið óhreyfð síðan meðan reynt er að greiða úr málum.

Málið er hið vandræðalegasta en eftir jómfrúarflugið upplýstu færeyskir fjölmiðlar að þotan hefði aðeins fengið undanþágu fyrir þetta eina flug. Bæði FarCargo og flugvallaryfirvöld í Færeyjum virðast hafa staðið í þeirri trú að öll leyfi væru komin í höfn þegar danska samgöngustofan greip í taumana. Ástæðan var sú að Vogaflugvöllur er skráður með viðmiðunarkóða C en hefði þurft að vera með kóða D, sem leyfir flugvélar með allt að 52 metra vænghaf.
Núna hefur 757-þotan Eysturoy aftur fengið bráðabirgðaleyfi til að lenda í Vogum en aðeins fyrir þessari einu ferð í dag. Áformað er að hún fljúgi frá Billund um miðjan dag og lendi í Færeyjum síðdegis. Þar verður þotan fyllt af ferskum laxi og síðan haldið til Keflavíkur um kvöldmatarleytið þar sem millilent verður til eldsneytistöku á leiðinni vestur um haf til New York.

Kringvarp Færeyja hefur eftir flugvallarstjóranum í Vogum að beðið sé eftir varanlegu leyfi fyrir 757-þotuna til að lenda í Færeyjum. „Við vitum ekki hvenær varanlegt leyfi kemur en það verður fljótlega,“ segir flugvallarstjórinn.
„Eins og við áttum von á erum við aftur komin með lendingarleyfi, eins og við fengum í síðustu viku. Núna hyggjumst við hefja reglulegt flug,“ segir Birgir Nielsen, framkvæmdastjóri FarCargo, í færslu á Facebook.