Fótbolti

Stjarnan í undan­úr­slit Lengju­bikarsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úr leik Stjörnunnar í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.
Úr leik Stjörnunnar í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.

Stjarnan tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Lengjubikars kvenna í knattspyrnu þegar liðið vann sigur á Þór/KA.

Fyrir leikinn í dag var Þór/KA í efsta sæti B-riðils og nú þegar búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar. Stjarnan var í þriðja sæti og þurfti sigur til að koma sér uppfyrir lið FH sem var í öðru sæti.

Gyða Kristín Gunnarsdóttir kom Stjörnunni yfir  úr víti á 23. mínútu en vítið var dæmt þegar brotið var á Huldu Hrund Arnarsdóttur í teig Akureyringa. Á 32. mínútu var komið að Þór/KA að fá víti en þá braut Erin McLeoud markvörður Stjörnunnar á leikmanni Þórs/KA í úthlaupi. 

Sandra María Jessen jafnaði metin úr vítaspyrnunni og staðan í hálfleik 1-1.

Bríet Jóhannsdóttir kom Þór/KA yfir á 63. mínútu með skoti úr teignum þar sem McLeoud í markinu hefði mögulega getað gert betur og vonir Stjörnunnar um sæti í undanúrslitum virtust vera að renna út í sandinn.

Þær sneru hins vegar leiknum við strax í kjölfarið á marki Bríetar. Fyrst jafnaði Hulda Hrund metin fyrir  eftir frábæran sprett upp völlinn og það var svo Esther Rós Arnarsdóttir sem skoraði sigurmark Stjörnunnar eftir frábæra fyrirgjöf Huldu Hrundar.

Lokatölur 3-2 og Stjarnan fer því í undanúrslit Lengjubikarsins ásamt liðum Vals og Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×