„Þetta er bara þáttur í því að samþætta þjónustuna,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar um breytinguna. Hún sé þó ekki nýtilkomin heldur hafi starfsfólk heilsugæslunnar verið að svara í 1700 símann ásamt Læknavaktinni síðasta ár.
Svörun við fyrirspurnum almennings verður nú alfarið sinnt af starfsfólki Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hægt er að hafa samband í gegnum síma og netspjall.
Þá heldur Upplýsingamiðstöðin utan um þekkingarvef Heilsuveru, þar sem almenningur getur sótt sér fróðleik um alls konar sjúkdóma, einkenni og úrræði.
Sigríður Dóra segir Upplýsingamiðstöðina byggja á niðurstöðum vinnuhóps sem skipaður var af heilbrigðisráðuneytinu en markmiðið sé að bæta og samþætta svörun við fyrirspurnum almennings.
Unnið sé eftir nákvæmum ferlum og öll svör byggi á gagnreyndum upplýsingum úr gagnabönkum.
Svarað er í númerinu 1700 allan sólahringinn auk þess sem netspjallið er opið frá 8 til 22 alla daga vikunnar.