Innlent

Geir hættir sem bæjar­stjóri Hvera­gerðis

Atli Ísleifsson skrifar
Geir Sveinsson var ráðinn bæjarstjóri Hveragerðisbæjar að loknum sveitarstjórnarkosningum 2022.
Geir Sveinsson var ráðinn bæjarstjóri Hveragerðisbæjar að loknum sveitarstjórnarkosningum 2022. Vísir/Vilhelm

Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar og Geir Sveinsson bæjarstjóri hafa náð samkomulagi um starfslok Geirs.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að tillaga að starfslokasamningi Geirs verði lögð fyrir bæjarstjórnarfund á föstudaginn. 

„Starfsfólk á bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar var upplýst í morgun um að tillagan verði lögð fram. Ekki verða veittar frekari upplýsingar fyrr en að bæjarstjórnarfundi loknum,“ segir í tilkynningunni.

Undir hana rita  Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs og Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar.

Geir er fæddur 1964 og var ráðinn bæjarstjóri Hveragerðisbæjar eftir að nýr meirihluti hafði auglýst stöðuna að loknum myndun meirihluta eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2022. 

Geir hafði þá verið sjálfstætt starfandi síðustu tvö ár en hann hafði áður þjálfað íslenska karlalandsliðið í handbolta um tíma og hefur einnig þjálfað félagslið í Þýskalandi. 

Framsóknarflokkur og O-listi, Okkar Hveragerðis, myndaði meirihluta að loknum kosningum 2022, eftir margra ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir

Geir Sveins­son nýr bæjar­stjóri í Hvera­gerði

Meirihlutinn í Hveragerðisbæ mun leggja fram tillögu um að Geir Sveinsson verði ráðinn sem bæjarstjóri á næsta bæjarstjórnarfundi. Geir mun hefja störf í upphafi ágústmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×