Ambition kom til Íslands frá Bretlandi með viðkomu á Orkneyjum og Færeyjum. 987 farþegar eru um borð. Í fréttatilkynningu frá Faxaflóahöfn segir að farþegar þess vilji upplifa norðurljós og feta í fótspor víkinga sem sigldu gjarnan þessa leið forðum daga.
Á síðasta ári komu 262 skemmtiferðaskip til landsins sem var metfjöldi. Í ár verða þau 258 talsins samkvæmt bókunarstöðu þann 1. mars.

Heildarfarþegar eru um 308 þúsund, en þar af eru 52 prósent skiptifarþegar. Sigurður Jökull Ólafsson, ,markaðstjóri Faxaflóahafna, segir gleðileg tíðindi að takist hafi að auka hlutdeild skiptifarþega þar sem tekjur af þeim séu ríflega þrisvar sinnum hærri heldur en af almennum skipafarþegum.
„Rannsókn Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála (RMF) sumarið 2023 leiddi í ljós aðalmennir farþegar skemmtiferðaskipa eyddu að meðaltali tæplega 28 þúsund á höfuðborgarsvæðinu – meðan skiptifarþegar eyddu tæplega 98 þúsund með gistingu á hótelum, mat, drykk, minjagripi, bílaleigu og annarri neyslu í landi. Þá var ekki talið með flugfargjald til eða frá landinu í sambandi við siglingu til eða frá Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Faxaflóahöfnum.
Sigurður Jökull segir ákveðnum toppi hafa verið náð á síðasta ári í fjölda skipa og nú sé horft til þess hvernig hægt sé að auka tekjur per ferðamenn frekar en vöxt í magni.

Á morgun verður fyrsta skóflustungan tekin að nýrri farþegamiðstöð sem áætluð er að verði tilbúin árið 2026. Sigurður segir um að ræða fyrstu stóru farþegamiðstöðina í mjög langan tíma.
„Ég sem markaðsstjóri er mjög glaður, því það sem maður vill gera er að auka framlegð og tryggja að við fáum meira út úr þessu. Það má ekki gleyma því að höfnin er miðlun, eins og flugstöð, Leifstöð til dæmis. Við erum eyja, það eru bara tvær gáttir inn i landið, skip eða flug. Okkar hlutverk er að vera skilvirk svo við getum haft öflugt atvinnulíf í landinu.“