Innlent

Ellefu manns ó­vart í fram­boði

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Viðmót meðmælasöfnunarsíðunnar á Ísland.is virðist hafa verið í flóknari kantinum.
Viðmót meðmælasöfnunarsíðunnar á Ísland.is virðist hafa verið í flóknari kantinum. Vísir/Vilhelm

Að minnsta kosti ellefu manns hófu meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð á Ísland.is fyrir slysni. Þau ætluðu öll að mæla með öðrum frambjóðenda en stofnuðu svo sjálf til meðmælasöfnunnar.

RÚV hafði samband við þá frambjóðendur sem höfðu ekki tilkynnt um framboð sitt og af þeim sem svöruðu í símann reyndust ellefu hafa stofnað eigin undirskriftarlista að þeim óvörum.

Margir þeirra sem haft var samband við komu af fjöllum og höfðu ekki hugmynd um að þeirra nafn væri á listanum. Af þeim spurðu nokkrir hvernig taka mætti nafn sitt af listanum.

Brynhildur Bolladóttir, lögfræðingur hjá landskjörstjórn, segir í samtali við RÚV að breytingar hafi verið gerðar á uppsetningu síðunnar sem notuð er til að stofna til meðmælasöfnunnar í ljósi málsins.

„Við gerðum breytingar í gær þannig að takkinn „Stofna til meðmælasöfnunar vegna forsetaframboðs“ er kominn neðst á síðuna til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta,“ segir hún í samtalið við Ríkisútvarpið.

Eins og er hafa 42 stofnað til meðmælasöfnunar en eitthvað virðist ætla að fækka á þeim lista í ljósi málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×