Skoðun

Leitum lausna – í sátt og sam­lyndi

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar

Íslenskan í vanda um þessar mundir – við erum í vanda. Það hefur komið fram í umræðum undanfarið, á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og víðar, að mikið og vaxandi óþol ríkir gagnvart ensku­notkun á Íslandi, ekki síst á kaffihúsum, veitingahúsum og í verslunum þar sem oft er ekki hægt að fá afgreiðslu á íslensku. Ég skil þetta óþol vel og hef fundið fyrir þessari tilfinningu sjálfur á ferðum um landið undanfarin ár. Íslenska er opinbert mál landsins og það er ekkert óeðlilegt að fólk geri ráð fyrir og ætlist til að geta notað íslensku við kaup á vörum og þjónustu. Sumt eldra fólk býr ekki heldur yfir nægilegri enskukunnáttu til að eiga auðvelt með að skilja matseðla sem eru eingöngu á ensku eða ræða á ensku við afgreiðslufólk.

Þess vegna er ástæðulaust og rangt að gera lítið úr þessu óþoli – það á sér skiljanlegar skýringar. Hins vegar mega eðlilegar kröfur fólks um að geta notað íslensku alls ekki bitna á því erlenda starfs­fólki sem um ræðir og hefur verið ráðið til starfa án þess að krafa hafi verið gerð um ís­lensku­kunnáttu. Það vinnur oft langan vinnudag og óraunhæft að gera ráð fyrir að það stundi íslenskunám með vinnunni. Til þess gefst ekki tími, auk þess sem framboð á heppilegri kennslu og kennsluefni er dapurlega lítið. Það versta er ef óþol fólks brýst út sem útlendingaandúð sem stundum örlar á. Það er ekki bara vont fyrir fólkið sem það bitnar á – það er líka vont fyrir íslenskuna vegna þess að hætta er á að það veki mótþróa gagnvart íslensku og íslenskunámi.

Á þessu er engin einföld lausn til – allra síst sú að amast við útlendingum í afgreiðslustörfum. Við þurfum á þeim að halda til að halda hagkerfinu gangandi. Þeir vinna störf sem Íslendingar geta ekki mannað – eða vilja ekki vinna. Rekstraraðilar veitingahúsa segjast ekkert geta gert – þeir fái ekki Íslendinga til starfa, og það sé óraunhæft að gera ráð fyrir að erlent starfsfólk læri íslensku. Það er samt engin afsökun fyrir því að hafa matseðla eingöngu á ensku eins og ýmis dæmi eru um. Ég held líka að það væri hægt að gera mun meira – kenna erlendu starfsfólki grundvallarorðaforða starfsins sem um er að ræða. Það á alveg að vera hægt að kenna fólki að heilsa og þakka fyrir, kenna því íslensk heiti á helstu réttum sem staðurinn býður upp á, o.s.frv.

En þá verða Íslendingar líka að koma til móts við fólk sem reynir að tala íslensku. Ég vonast til að viðleitni erlends starfsfólks til að tala íslensku myndi gera viðskiptavini jákvæðari í garð fólksins, en sumum útlendingum finnst það jafnvel gera illt verra að reyna að tala íslensku í stað þess að halda sig við enskuna því að þá fái þau oft á sig óvægna gagnrýni fyrir lélegan fram­burð, rangar beygingar, vitlaus orð o.s.frv. Það er gífurlega mikilvægt að Íslendingar breyti við­horfi sínu til „ófullkominnar“ íslensku, séu jákvæðir þegar fólk reynir að tala málið, sýni því þolinmæði og leitist við að liðsinna því og hvetja það áfram. Það er ekki vænlegt til árangurs að bregðast við ensku með því að strunsa út af staðnum. Það kemur íslenskunni ekki að gagni.

Við eigum nefnilega engan annan kost en finna raunhæfa lausn sem sættir ólík sjónarmið. Lausn sem tekur mið af því að enskan er komin til að vera í íslensku málsamfélagi og hér mun áfram verða fólk í afgreiðslustörfum sem ekki talar fullkomna íslensku – en jafnframt af því að ís­lenska er opinbert mál landsins sem mikilvægt er að unnt sé að nota á öllum sviðum, og það er eðlileg ósk fólks að geta notað málið í einföldum samskiptum við útlendinga. Lausnin hlýtur annars vegar að byggjast á því að erlent starfsfólk sé hvatt til að læra íslensku, og því auðveldað það á ýmsan hátt, og hins vegar á breyttu viðhorfi Íslendinga til útlendinga og „ófullkominnar“ íslensku. Lykilatriðin hljóta alltaf að vera umburðarlyndi, virðing og tillitssemi. Á báða bóga.

Höfundur er uppgjafaprófessor í íslensku og málfarslegur aðgerðasinni.




Skoðun

Sjá meira


×