Erlent

Öryggis­ráð SÞ sam­þykkir á­lyktun um vopna­hlé á Gasa

Lovísa Arnardóttir skrifar
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Vísir/EPA

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun um tafarlaust vopnahlé á Gasa á meðan Ramadan stendur en það er föstumánuður múslima. Ramadan er hálfnað eins og stendur og lýkur þann 9. apríl næstkomandi. 14 meðlimir ráðsins af 15 samþykktu ályktuna.

Bandaríkin sátu hjá í atkvæðagreiðslunni en þau hafa hingað til beitt neitunarvaldi sínu. Ákallið er það fyrsta sem öryggisráðið sendir frá sér þar sem þess er krafist að hlé verði gert á átökum. Öryggisráðið hefur frá því að átökin stigmögnuðust í október sent frá sér tvær ályktanir um þau en hvorug þeirra hefur fjallað um vopnahlé.

Þó svo að krafan um vopnahlé gildi aðeins í um tvær vikur segir í ályktuninni að vonir standi til þess að hlé á átökum geti leitt til varanlegra vopnahlés.

Í ályktuninni er þess einnig krafist að öllum gíslum sem teknir voru í árás Hamas í Ísrael þann 7. október verði sleppt. Á vef AP segir að sú krafa sé ekki tengd við Ramadan eins og sú um vopnahléið. Þá er þess einnig krafist að mannúðarsamtökum verði hleypt inn á svæðið með hjálpargögn. 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir ályktuna skýra. 

Tillagan var lögð fram af alls tíu ríkjum sem meðlimir eru í öryggisráðinu og naut stuðnings bæði Kínverja og Rússa auk 22 Arabaríkja sem eru meðlimir í Sameinuðu þjóðunum. Alls eiga fimmtán ríki sæti í ráðinu. 

Alls hafa um 32 þúsund Palestínubúar verið drepnir í átökunum samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Tveir þriðju þeirra látnu eru konur og börn samkvæmt stofnuninni. Stofnunin gerir ekki greinarmun á almennum borgurum og bardagamönnum. Alþjóðastofnanir hafa varað við því síðustu vikur að mannúðarkrísa sé yfirvofandi á svæðinu og hungursneyð.

Fréttin  hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×