Subway Körfuboltakvöld ræddi Tindastólsliðið og stöðuna sem liðið er nú í fyrir lokaumferðina.
„Þeir spiluðu frábæra vörn og leikmenn Hattar áttu engin svör. Maður hélt að Tindastóll væri að fara að sigla þessu þægilega en þeir hafa bara verið í vandræðum í síðari hálfleik allt tímabilið“ sagði þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson.
„Um leið og Tindastóll lendir í einhverjum erfiðleikum, fá eitthvað kjaftshögg, eru þeir rosalega fljótir að verða litlir í sér“ bætti Ómar Örn Sævarsson við.
„Svo langt frá því að vera Tindastólsliðið sem kláraði þetta allt saman í fyrra“ skaut Sævar Sævarsson inn í.
„Þeir eru búnir að vera undir pressu allt tímabilið, allir að spá þeim titlinum frá byrjun en þetta er bara aldrei búið að ganga vel. Tímabilið hefur bara verið skelfilegt frá A-Ö.“
Þáttastjórnandinn Stefán Árni velti þá fyrir sér því síendurtekna vandamáli Tindastóls að þeir spila yfirleitt alltaf verr í seinni hálfleik en þeim fyrri. Hann benti á að ákvarðanataka verði verri þegar menn þreytast og spurði sérfræðingana hvort liðið væri mögulega bara ekki í nógu góðu formi.
Sævar benti þá á erfiðleika liðsins og taldi upp fjölda leikmanna sem hafa gengið í gegnum meiðsli en viðurkenndi að hlutirnir „væru bara ekki alveg að ganga“.
Innslagið allt úr Subway Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.