Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins var fjölmennt á markaðnum þegar sprengjan sprakk. Þar var fjöldi fólks að kaupa ný föt handa börnum sínum í tilefni hátíðarinnar Eid al-Fitr, sem markar endi föstumánaðarins Ramadan 11. apríl næskomandi.
Hvíthjálmarnir, sjálfboðaliðahjálparsamtök í Sýrlandi, segja minnst tvö börn í hópi hinna látnu. Myndefni sem birst hefur af vettvangi sýnir mikla ringulreið á markaðnum, brak eftir sprengjuna, lík á víð og dreif og eld í nærliggjandi bíl.
Bærinn Azaz er rétt við landamærin að Tyrklandi og hafa uppreisnarmenn haft höfuðstöðvar sínar þar svo árum skipti. Bærinn hefur því verið ákveðinn suðupunktur, ekki síst þar sem í gegnum bæinn eru fluttar vörur frá Tyrklandi.
Það er ekki óalgengt að sprengjuárásir séu gerðar í norðurhluta Sýrlands, þar á meðal Azaz. Árið 2017 voru meira en fjörutíu drepnir þegar bílsprengja sprakk fyrir utan dómshúsið í bænum.