Gul veðurviðvörun er í gildi í fjórum landshlutum, það eru Strandir og Norðurland vestra, Norðurland Eystra, Austurland að Glettingi og Austfirðir.
Veðurfræðingur segir vegi hafa verið lokaða víða í gær, og von sé á meiru af því sama.
„Sérstaklega svona síðdegis, seinni partinn í dag, þá er bara að snjóa allan tímann fyrir norðan og austan. Það er gert ráð fyrir að ástand á vegum muni ekki skána mikið,“ segir veðurfræðingurinn Marcel de Vries. Jafnvel kunni veðrið að versna.
„Það er bara best að vera ekki að ferðast mikið í dag á milli landshluta, sérstaklega fyrir Norðan.“
Víða á hringveginum er skafrenningur eða hálka, til að mynda á Ólafsfjarðarvegi, Hvammstangavegi, Fljótsheiði og Holtavörðuheiði. Unnið er að mokstri á Steingrímsfjarðarheiði á Vestfjörðum, en Þröskuldar eru ófærir um sinn. Fylgjast má með uppfærslum um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar, Umferðin.is eða í síma 1777.
Í gær lentu fjórir erlendir ferðamenn í snjóflóði sem féll í Eyjafirði. Talin er töluverð hætta á snjóflóðum í innanverðum Eyjafirði, utanverðum Tröllaskaga, norðanverðum Vestjförðum og á Austfjörðum, samkvæmt ofanflóðaspá Veðurstofunnar.