Þegar þetta er skrifað sýna tölur á vef Vegagerðarinnar að yfir þúsund manns hafi lagt leið sína um Héðinsfjarðargöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar frá miðnætti.
Lögreglan á Norðurlandi eystra tók um tíma upp umferðarstýringu við Múlagöng, milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Göngin eru einbreið og því hafði myndast teppa vegna umferðarþungans.
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir að þrátt fyrir aukna umferð hafi fátt annað komið inn á borð lögreglu.
Myndir sem fréttastofu hafa borist frá Siglufirði sýna þá talsverðan fjölda bíla sem ekið hefur verið í gegnum bæinn í dag, en um er að ræða stystu leiðina á suðvesturhornið meðan Öxnadalsheiði er lokuð, en hún verður ekki opnuð í dag.
