Þetta upplýsti finnska lögreglan á blaðamannafundi klukkan 10 í morgun. Tólf ára barn var handtekið á vettvangi í morgun vegna gruns um að bera ábyrgð á árásinni og segir lögregla að barnið hafi játað árásina við skýrslutöku. Of snemmt sé þó að segja nokkuð til um ástæður árásarinnar.
Lögregla var kölluð á vettvang upp úr klukkan níu að staðartíma í morgun eftir að tilkynnt hafði verið um árásina í Viertolan-grunnskólanum í Vantaa, norður af Helsinki. Fyrstu lögreglumennirnir voru mættir í skólann um níu mínútum eftir að tilkynnt var um árásina.
Um níu hundruð nemendur í fyrsta til níunda bekk grunnskóla stunda nám við skólann. Starfsmenn skólans eru um níutíu.
Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, segir á samfélagsmiðlinum X að skotárásin í Vantaa sé átakanleg.
Ampumavälikohtaus Vantaalla järkyttää syvästi. Ajatukseni ovat uhrien, heidän läheistensä ja Viertolan koulun muiden oppilaiden ja henkilökunnan luona.
— Petteri Orpo (@PetteriOrpo) April 2, 2024
Seuraamme tilannetta tiiviisti ja odotamme viranomaisten päivittyviä tietoja.https://t.co/wJjwp8mcal
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skotárás er gerð í skóla í Finnlandi. Í september 2008 skaut nemandi við Háskólann í Kauhajoki tíu manns til bana áður en hann svipti sig lífi.
Í nóvember 2007 skaut svo átján ára nemandi í framhaldsskóla í Jokela átta manns til bana, áður en hann svipti sig lífi.