Erlent

Flaggað í hálfa stöng eftir skot­á­rásina

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð í Viertolan-grunnskólanum í Vantaa, norður af Helsinki.
Árásin var gerð í Viertolan-grunnskólanum í Vantaa, norður af Helsinki. AP

Flaggað verður í hálfa stöng við allar opinberar byggingar og stofnanir í Finnlandi í dag vegna skotárásarinnar í grunnskóla í Vantaa í gær. Tólf ára drengur lét lífið og tvær stúlkur særðust þar í árás tólf ára barns.

Finnska innanríkisráðuneytið greindi frá því að ákveðið hefði verið að flagga í hálfa stöng frá klukkan átta í morgun.

Árásin var gerð í Viertolan-grunnskólanum í Vantaa, norður af Helsinki. Um níu hundruð nemendur í fyrsta til níunda bekk grunnskóla stunda nám við skólann og eru starfsmenn skólans um níutíu.

Barnið sem er í haldi lögreglu hefur játað aðild sína að árásinni og er grunað um manndráp og tilraun til manndráps. Ekkert hefur þó verið gefið upp um ástæður árásarinnar, þó að lögregla segist hafa ákveðna hugmynd um það. „Ef maður mætir með byssu í skólann, þá er hægt að segja að það krefjist ákveðinnar skipulagningar,“ sagði lögreglustjórinn Kimmo Hyvärinen á blaðamannafundi í gær.

AP

Í frétt YLE segir að árásarmaðurinn og hinn látni, auk annarrar stúlkunnar sem særðist, séu finnskir ríkisborgarar. Hin stúlkan sem særðist er með kósovóskan og finnskan ríkisborgararétt. Lögregla hefur sérstaklega varað við að að rangar upplýsingar um árásina séu nú í dreifingu á samfélagsmiðlum, sér í lagi á TikTok.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skotárás er gerð í skóla í Finnlandi. Í september 2008 skaut nemandi við Háskólann í Kauhajoki tíu manns til bana áður en hann svipti sig lífi. Í nóvember 2007 skaut átján ára nemandi í framhaldsskóla í Jokela átta manns til bana, áður en hann svipti sig lífi.


Tengdar fréttir

Skot­á­rás í finnskum grunn­skóla

Lögregla í Finnlandi hefur handtekið einn eftir að tilkynnt var um skotárás í grunnskóla í finnska bænum Vantaa í morgun. Einhverjir hafa særst í árásinni þó að enn hafi ekki verið gefið upp um nákvæman fjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×