Farin var sú leið að bera Baldur saman við þá sem mest hefur borið á í umræðu í tengslum við embættið. Þannig vildi stuðningsfólk Baldurs máta hann við líklegustu keppinauta. Svarendur Prósents fengu lista yfir nokkra einstaklinga sem hafa ýmist stofnað meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð eða verið orðaðir við framboð. Spurt var:
Hver af eftirfarandi myndir þú vilja að verði næsti forseti Íslands, óháð því hvort að einstaklingurinn hafi tilkynnt framboð sitt eða ekki?
Könnun var framkvæmd dagana 28. mars til 3. apríl, úrtakið var 2500 manns og svarhlutfall 52 prósent.

Baldur Þórhallsson fékk 27 prósent atkvæða. Næst á hæla honum komu hnífjöfn Jón Gnarr leikari og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með 17 prósent. Halla Tómasdóttir, forstjóri B team, er í fjórða sæti með tíu prósent.
Nafna hennar Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og Arnar Þór Jónsson lögmaður koma þar á eftir með fjögur prósent. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar rekur svo lestina af þeim sem spurt var um með eitt prósent.
Nítján prósent þeirra 1256 sem svöruðu könnuninni svöruðu „veit ekki“.

Ýmislegt hefur gerst á þeim sex dögum sem könnunin tók til. Jón Gnarr tilkynnti um framboð í gær, Guðmundur Felix Grétarsson bættist í hópinn í dag og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er byrjuð að safna meðmælum. Þá tjáði Katrín Jakobsdóttir sig loksins í dag um framboð sem hún sagðist íhuga alvarlega.
Þá ber að nefna að um sextíu manns eru skráðir í meðmælasöfnun á vefsíðunni Ísland.is. Þó liggur fyrir að hluti þeirra gerði það fyrir mistök, aðrir í gríni og svo aðrir af alvöru án þess að hafa kynnt framboð sín sérstaklega til leiks.
Áhugavert er að skoða bakgrunnsbreytur þeirra sem tóku afstöðu í könnun Prósents fyrir stuðningsfólk Baldurs. Þar sést meðal annars að Baldur nýtur meira fylgir meðal kvenna og hið sama gildir um Höllu Tómasdóttur. Katrín og Jón njóta ívið meirri stuðnings hjá körlum.

Baldur nýtur mest fylgis í öllum aldurshópum nema þeim yngsta. Þar eru yfirburðir Jóns Gnar algjörir. Jón nýtur 49 prósents fylgis meðal fólks á aldrinum 18-24 ára á meðan innan við fjögur prósent þeirra eldri en 65 ára vilja sjá hann sem forseta.

Þegar horft er til tekna fólksins þá hefur Baldur mest fylgi í öllum flokkum nema hátekjuflokknum. Þangað sækir Katrín Jakobsdóttir mest fylgi eða 34 prósent.

Gögnunum var safnað frá 28. mars til 3. apríl en um er að ræða netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 2500 manns, einstaklingar átján ára og eldri og var svarhlutfall 52 prósent.
„Gögn voru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu. Tölur eru því námundaðar að næstu heilu tölu. Misræmi getur því verið á samanlögðum fjölda einstaklinga í greiningum og tíðnitöflum.“