Skoðun

Gerum það sem við getum: Snið­göngum Ra­pyd og vörur frá Ísrael

Auður Styrkársdóttir skrifar

Ísraelsríki var stofnað þann 14. maí árið 1948 með stuðningi alþjóðasamfélagsins, og óþarfi að rifja upp þá sögu.

Margir vita ekki, að þann 15. maí ár hvert er sorgardagur Palestínumanna, kallaður Nakba. Hörmungar.

Þann dag árið 1948 og næstu daga og vikur voru 750.000 menn, konur og börn hrakin úr 500 bæjum og þorpum, og þeim ýmist eytt eða gyðingar settust þar að og gáfu öllu nýtt nafn.

Eitt þessara þorpa hét Tantura og var friðsælt fiskiþorp. Nú er þar vinsæll baðstaður gyðinga. Þar hafa fundist fjöldagrafir. Um þetta má lesa á netinu.

Ofbeldið hefur dunið á Palestínumönnum æ síðan. Nú eru um sex milljón uppflosnungar í eigin landi, og Ísraelsher sýnist ætla að útrýma þeim sem flestum.

Nokkrir þjóðarleiðtogar eru farnir að ókyrrast.

Flestir standa þó hjá.

Aðgerðarlausir.

Við, almenningur, getum hins vegar gert heilmargt.

Við getum forðast vörur frá Ísrael, strikamerki sem byrjar á 729.

Við getum forðast að okkar aurar renni úr landi og til ísraelska fyrirtækisins Rapyd og sýnt þannig forstjóra þess, sem er opinber stuðningsmaður og samverkamaður ísraelska hersins, að við látum ekki bjóða okkur þetta.

Við getum notað greiðslukort frá Indó, Íslandsbanka eða Kviku.

Við getum verslað við Krónuna, Fjarðarkaup eða Melabúðina, ef hægt er.

Við getum spurt um greiðsluhirði áður en við borgum með korti, eða flett upp greiðsluhirði búðarinnar á www.hirdir.is

Við getum krafist þess að Ríkiskaup segi þegar í stað upp samningi sínum við Rapyd svo íslenska ríkið láti af þeim óbeina stuðningi sínum við þjóðarmorð.

Og við getum krafist þess að íslensk stjórnvöld komi hér upp innlendu greiðslukortafyrirtæki, og láti ekki örfáa fjársterka hagsmunaaðila stöðva þau áform.

Þjóðaröryggi krefst þess.

Siðferðisvitundin krefst þess.

Og þá myndu ekki 20 milljarðar renna árlega úr landi til erlendra fyrirtækja.

Dirfist einhver stjórnmálamaður að slá hendinni móti því fé?

Okkar skattfé.

Höfundur er pensjónisti.




Skoðun

Sjá meira


×