Íslenski boltinn

„Núna er bara spurningin hvort þeir séu með rétta þjálfarann eða ekki?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur mætir ÍA í 1. umferð Bestu deildar karla á morgun.
Valur mætir ÍA í 1. umferð Bestu deildar karla á morgun. vísir/hulda margrét

Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, segir að Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, sé undir mikilli pressu að vinna titil, eða titla, í sumar.

Val er spáð 1. sæti Bestu deildarinnar í árlegri spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports. Valsmenn enduðu í 2. sæti á síðasta tímabili.

Miklar væntingar eru gerðar til Vals í sumar, sérstaklega eftir að Gylfi Þór Sigurðsson samdi við félagið. Baldur segir að ekkert annað en titill, eða titlar, komi til greina fyrir Arnar í sumar og pressan á honum sé mikil. 

„Já, hundrað prósent. Svo einfalt er svarið. Hann er það. Það er bara titill, eða jafn titlar, sem þurfa að koma inn á Hlíðarenda. Hann veit það sjálfur og er ekkert feiminn að segja það,“ sagði Baldur í upphitunarþætti Stúkunnar.

Klippa: Stúkan - umræða um Val

Guðmundur Benediktsson spurði Baldur hvort Arnar væri undir pressu frá fyrsta leik og þurfi að ná árangri undir eins.

„Já, ég held það. Það má ekkert dragast eða þannig. Það verður ekkert þannig, þetta var gott ár og við lentum aftur í 2. sæti, nú tökum við þetta á næsta ári, það er svo góð þróun á liðinu. Það er ekki í boði. Það er þetta ár núna; að fá titil,“ sagði Baldur. 

Albert Brynjar Ingason var sammála Baldri.

„Núna er bara spurning með þjálfarann, hvort þeir séu með rétta þjálfarann eða ekki? Þeir upplifa að hópurinn sé klár og nógu góður til að vinna þetta,“ sagði Albert.

Umræðuna um Valsliðið má sjá í spilaranum að ofan. Að neðan má heyra þáttinn í heild sinni, sem og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×