Erlent

Sögu­legur jarð­skjálfti skók austur­ströndina

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjálftinn fannst vel í New York, en þar eru jarðskjálftar ekki tíðir.
Skjálftinn fannst vel í New York, en þar eru jarðskjálftar ekki tíðir. Getty/Diana Robinson

Íbúar New York og nærliggjandi svæða fundu í dag fyrir sjaldgæfum jarðskjálfta. Jarðskjálfti þessi, sem fannst víða á norðanverðri austurströnd Bandaríkjanna, mældist 4,8 stig og eru upptök hans nærri Lebanon í New Jersey, um áttatíu kílómetra vestur af Manhattan.

Jarðskjálftinn er sagður hafa fundist allt frá Philadelphia til Boston en jarðskjálftar eru ekki tíðir við austurströnd Bandaríkjanna, sem liggur á langt frá öllum flekaskilum.

Þetta ku vera kröftugasti jarðskjálftinn í New Jersey í nærri því 250 ár og sá þriðji stærsti frá því mælingar hófust fyrir um 280 árum, samkvæmt fréttakonu NBC.

Mörgum íbúum New York er sagt hafa brugðið við jarðskjálftann, sem stóð yfir í allt að þrjátíu sekúndur.

Ekki liggur fyrir hvort jarðskjálftinn hafi valdið miklum skemmdum eða manntjóni en Kathy Hochul, ríkisstjóri New York hefur sagt það til skoðunar.

Jarðskjálftinn varð um klukkan 10:20 að staðartíma, samkvæmt frétt New York Times. Þá var starfsemi nokkurra flugvalla stöðvuð um tíma. Að öðru leyti virðist sem jarðskjálftinn hafi lítil áhrif haft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×