Viðvaranirnar eru gefnar út vegna norðaustan hríðar. Búast má við vindi á bilinu 10-18 m/s á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi með skafrenningi eða éljagangi, sem breytist í samfellda snjókomu á sunnudag. Hvassast verður til fjalla þar sem reikna má með vindhviðum að 30 m/s.
Á Austfjörðum er varað við norðan eða norðaustan 13-20 m/s og skafrenningi eða éljum sem fara yfir í samfellda snjókomu á sunnudag. Hvassast á Suðurfjörðunum þar sem reikna má með vindhviðum að 35 m/s.
Á suðausturlandi er varað við 15-23 m/s með vindhviðum að 35 m/s, hvassast í Öræfum. Á Miðhálendinu má búast við 18-25 m/s og snjókomu eða skafrenningi og litlu skyggni.
Hvergi á austanverðu landinu er ferðaveður á meðan viðvaranirnar gilda. Þær taka gildi klukkan tólf á hádegi á morgun og vara fram til miðnættis á sunnudag.