Mótmælin fóru fram á þjóðvegi A12 þar sem Thunberg sat ásamt öðru baráttufólki og mótmælti þannig aðgerðaleysi í loftslagsmálum.
Nokkrir mótmælendur, þar á meðal Thunberg, voru fyrr um daginn handteknir vegna mótmælanna en sleppt skömmu síðar. Thunberg nýtti tækifærið þegar hún var laus og slóst í annan mótmælendahóp sem hafði komið sér fyrir á öðrum vegi skammt frá í þeim tilgangi að stífla umferðina.
Þar var hún handtekin seinna um daginn og ekið í burtu í lögreglubíl. Samkvæmt heimildum Reuters var hún látin laus nokkrum klukkustundum síðar.
Fyrir handtökuna sagði Thuberg blaðamönnum að hún væri að mótmæla vegna þess að jörðin stæði frammi fyrir tilvistarkreppu.
„Upp er komið hnattrænt neyðarástand og við getum ekki setið hjá þegar fólk missir líf sitt og lífsviðurværi og neyðist til að gerast loftslagsflóttamenn þegar vel er hægt að gera eitthvað í þessu,“ sagði Thunberg.
Í færslu frá lögreglunni í Haag á samfélagsmiðlinum X kemur fram að 412 hefðu verið handteknir í tengslum við mótmælin.
Bij de poging om de #A12 in #DenHaag te blokkeren zijn 12 mensen aangehouden, o.a. voor het niet voldoen aan bevel, voor opruiing en wet ID. Daarnaast zijn bijna 400 mensen aangehouden voor het overtreden van de WOM. https://t.co/cYneq6bbTB
— Politie Eenheid Den Haag (@POL_DenHaag) April 6, 2024