Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að sólmyrkvinn hefjist klukkan tíu mínútur í sjö að kvöldi til þegar sól er lágt á lofti í vestri. Hann nær svo hámarki um tuttugu mínútur í átta en er þá aðeins tæpum sex gráðum yfir sjóndeildarhring. Háar byggingar eða tré gæti skyggt á.
Eins og fram kom sést almyrkvi í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada sem hefst við sólarupprás í suðurhluta Kyrrahafsins klukkan tuttugu mínútur í fimm að íslenskum tíma. Hann nemur fyrst land á meginlandi Ameríku í Mexíkó um sex leytið og er mestur og lengstur til sautján mínútur yfir sex að kvöldi. Hann stendur yfir í fjórar mínútur og 28 sekúndur.
Neyðarástand vegna aðsóknar í Bandaríkjunum
„Á almyrkvaslóðinni búa yfir fjörutíu milljónir manna og búist er við að margar milljónir í viðbót muni ferðast inn í slóðina sem er 185 km breið. Víða í Texas, þar sem veðurútlitið er best, er búist við slíkum fjölda ferðafólks og umferðaröngþveiti að lýst hefur verið yfir neyðarástandi vegna þess,“ kemur fram á Stjörnufræðivefnum.
Neyðarástandið sem minnst er á er það að borgir í Texas eru að gera ráð fyrir mörghundruð þúsund manna stjörnufræðingahjörð á morgun. Hótel og gistihús eru nánast alls staðar uppbókuð á ferli alskuggans. Búist er við umferðarteppum, eldsneytisskorti og örtröð á veitingahúsum, sjúkrahúsum og matvöruverslunum fylkisins.
Almyrkvi í Reykjavík 2026
Við Íslendingar verðum hins vegar ekki lengi útundan. Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi sjáanlegur frá vestasta hluta Íslands, Reykjavík meðtaldri. Það verður jafnframt fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní árið 1433.
„Undirbúningur er þegar hafinn og verða opnaðir sérstakir vefir, eclipse2026.is og solmyrkvi2026.is þar sem finna má allar helstu upplýsingar um almyrkvann, kort, veður og fleira.“