Margt bendir til þess að ráðherrarnir muni þurfa daginn í dag til að ná saman og því ólíklegt að forseti Íslands kalli formenn stjórnarflokkanna á sinn fund í dag, samkvæmt heimildum fréttastofu.
Þá hefur forseti Íslands verið upplýstur um stöðu viðræðna, samkvæmt heimildum. Katrín Jakobsdóttir gengur á fund forseta klukkan tvö í dag þar sem hún mun segja af sér embætti. Á þeim fundi kemur í ljós hvort hún muni þurfa að gegna embætti forsætisráðherra í nokkra daga til viðbótar eða ekki.
Hafi leiðtogar ríkisstjórnarinnar ekki komið sér saman um áframhaldandi samstarf þegar Katrín biðst lausnar mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands biðja hana að sitja áfram. Það breytir því þó ekki að Katrín mun segja af sér þingmennsku þegar þing kemur saman á morgun.