Bessastaðabaráttan og sérstaklega mynd sem dreift var á síðunni, hefur vakið mikla athygli og reiði síðan hún var sett í loftið. Á myndinni má sjá Baldur Þórhallsson, sem er í forsetaframboði líkt og Ástþór, kyssa eiginmann sinn Felix Bergsson. Í bakgrunni má sjá annað samkynhneigt par í faðmlögum og fána hinseginfólks.
Þá má sjá talblöðrur þar sem lesa má gömul ummæli þeirra Baldurs og Felix, greinilega ætlaðar þeim til smættunar. Netverjar hafa margir hverjir lýst yfir óánægju sinni með gjörninginn.
Sá þetta á Facebook. Eitt er að hafa sínar skoðanir á mönnum og málefnum, en mér finnst glatað að borga fyrir að bera svona út. Allir eiga fortíð, geta beðist afsökunar, bætt sig og eiga að njóta sannmælis.
— Arnar Arinbjarnarson (@arnarar) March 31, 2024
Kosningar eiga að vera málefnalegar en ekki leðjuslagur. pic.twitter.com/zYTOyl8G6M
Símanúmer og vefsíða í eigu Ástþórs tengd síðunni
Aðrir netverjar hafa gengið skrefinu lengra og reynt að komast að því hver stendur að baki síðunni. Í frétt DV segir að slík rannsókn hafi leitt í ljós að símanúmer og vefsíða í eigu Ástþórs væru skráð fyrir síðunni.
DV hafi því sent Ástþóri fyrirspurn vegna málsins og spurt hvort síðan væri ekki í mótsögn við skilaboð hans um alheimsfrið.
Ástþór hafi ekkert viljað kannast við málið og í yfirlýsingu sagt að hvorki Bessastaðabaráttan né umrædd mynd væri á hans vegum.
„Þess má geta að sama dag var umræddri Facebook-síðu eytt,“ segir í frétt DV.