Íslenski boltinn

„Við vorum aldrei lík­legir til þess að brotna“

Andri Már Eggertsson skrifar
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var nokkuð brattur eftir leik
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var nokkuð brattur eftir leik Vísir/Hulda Margrét

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var nokkuð brattur þrátt fyrir 2-0 tap gegn Val í 1. umferð Bestu deildarinnar.

„Ég var svekktur að hafa fengið þessi tvö mörk á mig eftir fyrirgjöf og bras við að koma boltanum frá. Við fengum tækifæri í bæði skiptin til að koma boltanum frá og ég var svekktur með það. Við nýttum ekki okkar færi þar sem við fengum tvö mjög góð færi bæði í fyrri og seinni hálfleik,“ sagði Jón Þór Hauksson í samtali við Vísi eftir leik. 

Jón Þór var nokkuð sáttur með fyrri hálfleikinn þar sem Valur var einu marki yfir í hálfleik.

„Okkur leið nokkuð vel í hálfleik. Valsliðið er sterkt og frábært lið. Það voru kaflar í leiknum þar sem við vorum í vandræðum en mér fannst við koma heilir í gegnum þá og vorum ekki líklegir til að brotna heldur héldum við liðsheild og samheldni allan leikinn. Það komu kaflar í þessum leik þar sem við áttum undir högg að sækja en við vorum aldrei líklegir til þess að brotna.“

Valur hélt töluvert meira og betur í boltann heldur en ÍA en Jón Þór var ánægður með varnarleik Skagamanna.

„Heilt yfir fannst mér við verjast ágætlega. Mér fannst vanta þetta augnablik til þess að koma okkur betur inn í leikinn.“

Skagamenn fóru að sækja undir lokin og náðu að skapa sér færi og Jón Þór hefði viljað sjá þá byrja fyrr að stíga hærra upp völlinn.

„Við vorum tveimur mörkum undir og það var lítið eftir. Það hefði verið gaman að nýta færin sem við fengum undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun seinni hálfleiks,“ sagði Jón Þór Hauksson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×