„Fyrstu viðbrögð eru svona smá svekkelsi með það hvernig við enduðum leikinn en þegar maður er búinn að jafna sig á því þá er þetta bara góður sigur.“ Sagði Atli strax að leik loknum.
Atli hefur verið einn af mikilvægustu mönnum KR á undanförnum árum en hefur því miður ekki geta leikið mikið með KR á undirbúningstímabilinu. Atli kom inn á í upphafi seinni hálfleiks eftir að Hrafn Tómasson þurfti að fara meiddur af velli en hann hafði komið inn á í fyrri hálfleik fyrir Aron Sigurðarson. Atli var því þriðji maðurinn í dag til að leika á vinstri vængnum fyrir KR og tókst heldur betur að setja mark sitt á leikinn. En hvernig er að vera kominn aftur á völlinn?
„Það var auðvitað mjög gaman. Það er búið að vera frekar leiðinlegt að spila engan fótbolta í sirka hálft ár en þetta var bara geggjað. Góð mæting í stúkuna hörkuleikur auðvitað. Ég er kominn í fínt form, kem ábyggilega inn af bekknum í einn eða tvo leiki í viðbót, mesta lagi þrjá og svo er ég klár í 90 mínútur.“
Atli skoraði glæsilegt mark eftir að hafa tekið ábyggilega 50 metra sprett þegar hann slapp einn í gegn eftir að KR-ingar náðu að hreinsa boltann fram. Atli lá aðeins eftir sprettinn en tókst þó að klára leikinn.
„Hann (Ólafur Kristófer, markvörður Fylkis) lenti svolítið illa ofan á öxlinni á mér en það jafnar sig fljótt hugsa ég.“
Atli kom svo KR 4-1 yfir þegar um það bil 10 mínútur voru eftir af leiknum en við slökuðu KR-ingar full mikið á og það mátti ekki miklu muna að heimamenn jöfnuðu undir lok leiksins.
„Við verðum smá kærulausir. Við fórum mögulega smá í svona krúskontról á slæman hátt eftir að við komumst 4-1 yfir. Mér fannst við verða værukærir og já þetta var bara alls ekki gott og eitthvað sem við þurfum að skoða og passa að þetta gerist ekki aftur.“