Innlent

„Ef ekki er markaður fyrir kjötið er efna­hags­legur á­vinningur enginn“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr matvælaráðherra, var nokkuð afdráttarlaus um afstöðu sína til hvalveiða árið 2019.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr matvælaráðherra, var nokkuð afdráttarlaus um afstöðu sína til hvalveiða árið 2019. Stöð 2/Arnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr matvælaráðherra, vildi ekki tjá sig um það í gær hvort hún myndi heimila eða banna hvalveiðar. Hún var þó afdráttarlaus um afstöðu sína á þingfundi í febrúar árið 2019.

Þar sagði Bjarkey að ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að heimila áfram hvalveiðar hefði valdið henni miklum vonbrigðum.

„Fátt bendir til þess að hvalveiðar muni nokkru sinni ná fyrri stöðu í atvinnulífinu og enn minni líkur eru á að slíkar veiðar öðlist viðurkenningu alþjóðlegra stofnana á sviði umhverfisverndar,“ sagði Bjarkey meðal annars.

„Að mínu mati er grundvallarforsenda nýtingu náttúruauðlinda að hún sé byggð á sjálfbærni eins og ríkisstjórnin hefur ítrekað og sjávarútvegsráðherra ítrekaði í viðtali hjá RÚV 17. janúar síðastliðinn,“ bætti hún við en það fæli í sér að efnahagsleg og félagsleg áhrif af veiðunum væru jákvæð.

„Meðan ekki eru fyrirsjánlegir markaðir fyrir hvalkjöt má gefa sér að veiðarnar verði ekki sjálfbærar því ef ekki er markaður fyrir kjötið er efnahagslegur ávinningur enginn. Við eigum ekki að taka séns á því að stofna einum mikilvægasta atvinnurekstri okkar í hættu sem er ferðaþjónustan – við höfum ekki efni á því,“ sagði matvælaráðherra.

Guðmundur Ingi Gubrandsson, þáverandi umhverfisráðherra og núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagðist sömuleiðis hafa orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun Kristjáns og sagðist vilja endurmeta stefnu stjórnvalda varðandi veiðarnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×