Erlent

Mál kvenna vegna líkams­leitar í kjöl­far barns­fundar fellt niður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómarinn sagði ekki hægt að gera flugfélagið ábyrgt tyrir framgöngu lögreglu og heilbrigðisstarfsmanna.
Dómarinn sagði ekki hægt að gera flugfélagið ábyrgt tyrir framgöngu lögreglu og heilbrigðisstarfsmanna. Getty/NurPhoto/Robert Smith

Alríkisdómstóll í Ástralíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að fella niður mál fimm kvenna gegn Qatar Airways, vegna líkamsleitar sem þær voru látnar sæta.

Forsaga málsins er sú að konunum fimm og öðrum kvenkyns farþegum flugfélagsins var skipað að yfirgefa vél félagsins á Doha á alþjóðaflugvellinum í Doha í Katar eftir að nýfætt barn fannst í ruslafötu á vellinum árið 2020.

Konurnar voru látnar afklæðast og sæta skoðun af hálfu hjúkrunarfræðinga, gegn vilja sínum.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að málið félli ekki undir svokallaðan Montreal-sáttmála um ábyrgð flugfélaga, sem fjallar meðal annars um tilvik þegar farþegar verða fyrir meiðslum eða deyja.

Þá sagði dómarinn í málinu að það væri ekki hægt að láta Qatar Airways sæta ábyrgð vegna framgöngu lögreglu né heilbrigðisstarfsmannanna sem skoðuðu konunnar.

Konurnar höfðuðu einnig mál gegn flugmálaeftirliti Katar, sem dómarinn sagði njóta friðhelgi frá málshöfðunum utan Katar. 

Dómarinn gaf hins vegar grænt ljós á mál gegn Matar, dótturfélagi Qatar Airways, sem sér um rekstur Hamad-alþjóðaflugvallarins.

Konurnar stigu fram í viðtölum við BBC. Ein þeirra sagðist hafa upplifað skoðunina sem nauðgun og önnur að hún hefði haldið að það væri verið að ræna þeim til að halda í gíslingu.

Konurnar voru beðnar afsökunar af forsætisráðherra Katar í kjölfar þess að málið rataði í fjölmiðla. Þá greindu yfirvöld frá því að líðan barnsins væri með ágætum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×