Miðað við síðustu könnun Maskínu fyrir tíu dögum eykur Katrín forskotið um rúmt prósentustig, eða úr 6,2 prósentustigum í 7,4 prósentustig. En aukningin er kannski innan skekkjumarka. Nú er Katrín með 31,4 prósenta fylgi en Baldur Þórhallsson með 24 prósenta fylgi.

Það er hins vegar athyglivert við þessa könnun að nú er ekki lengur marktækur munur á Baldri og Jóni Gnarr í þriðja sætinu með 18,9 prósent. En Jón hefur nú verið með nánast óbreytt fylgi á bilinu 18 til 19 prósent í öllum könnunum sem birtar hafa verið að undanförnu.
Halla Hrund Logadóttir tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu Maskínu könnun og mælist með 10,5 prósent. Á hæla hennar kemur síðan nafna hennar Halla Tómasdóttir með 6,7 prósent. Aðrir frambjóðendur eru allir með minna en fimm prósent og nær einu eða tveimur prósentum.
Katrín er með yfirburðarstöðu meðal kjósenda Vinstri grænna þar sem 85 prósent myndu kjósa hana. Þá myndu 48 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 34 prósent kjósenda Framsóknarflokksins einnig kjósa Katrínu.

Baldur er sterkastur meðal kjósenda Pírata (34%), Flokks fólksins (27%), Samfylkingarinnar (36%), og Viðreisnar (34%). En reyndar er fylgi kjósenda Samfylkingarinnar og Viðreisnar nánast jafnt á milli Katrínar og Baldurs og það sama má segja um kjósendur Pírata gagnvart Jóni og Baldri. Baldur mælist með 34 prósent hjá Pírötum og Jón með 33 prósent.
Fylgi Höllu Hrundar er frá um 7 prósentum meðal kjósenda Viðreisnar upp í 22 prósent meðal kjósenda Sósíalistaflokksins. Almennt fylgi hennar meðal flokkanna er á bilinu 10 til 13 prósent.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Fréttatímann í heild má sjá að neðan: