Skoðun

Þurfum við að koma Ís­landi aftur á rétta braut?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Það var athyglisvert að hlusta á skilaboð Samfylkingarinnar á flokksstjórnarþingi hennar um liðna helgi. Skilaboðin voru þau að fólk biði í ofvæni eftir því að flokkurinn kæmi þeim til bjargar. Það hefði miklar væntingar til þess að flokkurinn myndi „rífa hlutina í gang og koma Íslandi aftur á rétta braut.“

Þessi hvatningarorð sem eiga að glæða vonarglætu í brjóstum örvæntingarfullra kjósenda eru ekki beinlínis í samræmi við stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Síður en svo.

Ísland meðal ríkustu landa heimsins. Ísland er eitt öruggasta land í heimi. Á Íslandi er einhver mesti jöfnuður sem fyrirfinnst og félagslegur hreyfanleiki sömuleiðis; hér eru jöfnust tækifæri. Íslendingar eru meðal hamingjusömustu þjóða heims og lifa einna lengst. Hér er kynjajafnrétti mest í heimi, mesta atvinnuþátttaka kvenna og hér er einn mesti stuðningurinn við barnafjölskyldur. Á Íslandi atvinnuleysi með því lægsta sem þekkist og mest aðgengi að atvinnutækifærum. Hér er einhver mesti kaupmáttur launa á byggðu bóli og við höfum líklega besta lífeyriskerfi í heimi. Á Íslandi er hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku og hér er hreinna loft en annars staðar. Að vera í fararbroddi í langflestum samanburði við önnur lönd þýðir samt ekki, að ekki megi gera betur. Þá skiptir máli að treysta þeim til þess sem hafa sýnt fram á árangur í verki.

Í Reykjavíkurborg sem Samfylkingin hefur stýrt áratugum saman, finnast nefnilega sannarlega örvæntingafullir kjósendur. Reykvíkingar sem borga himinhá fasteignagjöld, en fá ekki dagvistunarpláss fyrir börnin sín. Við erum með yfirfullar ruslatunnur þrátt fyrir hlutastarf við flokkun. Reykvíkingar sem finna ekki samastað í borginni á yfirfullum og rándýrum þéttingarreitum. Við sitjum föst í bílaumferð dag hvern. Og búum í höfuðborginni sem er á hausnum og fær hvergi lán. Það væri nær að Samfylkingin lofaði Reykvíkingum að „rífa hlutina í gang“ og koma borginni aftur á rétta braut. Þar sem hún hefur sannarlega umboð og tækifæri til, ekki í framtíðinni heldur núna.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×