Innlent

Með 19 þúsund MDMA-töflur í ferða­töskunni

Atli Ísleifsson skrifar
Konan kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn 4. febrúar síðastliðinn.
Konan kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn 4. febrúar síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu, Georgia Birliraki, í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa smyglað tæplega 19 þúsund töflum af MDMA með flugi til landsins.

Konan, sem er fimmtug að aldri, var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en hún kom efnin til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn 4. febrúar síðastliðinn. Í ákæru kom fram að efnin hafi verið falin í ferðatösku og til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Birliraki játaði skýlaust sök, en í dómi segir að hún hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Af gögnum megi ráða að hún hafi ekki verið eigandi efnanna heldur samþykkt að flytja þau til landsins gegn greiðslu.

Við ákvörðun refsingar verði ekki litið framhjá því að hún hafi flutt mikið magn af MDMA með afar mikla hættueiginleika. Þó hún hafi verið burðardýr sé ljóst að innflutningurinn hafi ekki orðið að veruleika án hennar aðkomu. Er talið að hagnaður af sölu efnanna á fíkniefnamarkaði hér hefði numið um eða yfir sextíu milljónum króna.

Hæfileg refsing var metin tveggja og hálfs árs fangelsi, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hún hafði sætt frá komu til landsins. Konunni var jafnframt gert að greiða 1,3 milljónir króna í sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×