Grétar Snær fékk rauða spjaldið seint í leiknum, á 86. mínútu, fyrir tæklingu á Adam Ægi Pálsson, leikmann Vals, sem lá óvígur eftir. Stimpingar brutust út milli manna í kjölfarið
Einhver læti höfðu verið í leiknum og harka inn á milli, líkt og eðlilegt er, en til að mynda fengu Ísak Óli Ólafsson og Aron Jóhannsson að líta gult spjald hvor eftir viðskipti þeirra á milli í fyrri hálfleiknum. Aron sagði það eðlilegt í viðtali við RÚV eftir leik en hegðun Grétars hefði verið út fyrir öll velsæmismörk.
„Það var bara smá kítingur, hafa smá hita í þessu. Svo kemur Grétar Snær með tæklingu sem verðskuldar margra leikja bann, hann hefði getað brotið lappirnar á einhverjum,“
„Það er munur á að vera með heimskuleg brot og smá æsing, hann greinilega espaðist svona mikið upp við þetta og hagaði sér eins og lítill krakki á vellinum,“ segir Aron.
Gult í fyrra segir Heimir
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var á allt öðru máli. Mikið hefur verið rætt um harðari línu dómara í upphafi móts í ár en býsna mörg gul spjöld litu dagsins ljós í fyrstu umferð deildarinnar, nánast tvöföldun frá fyrstu umferð í fyrra.
Áherslur dómara í ár snerta þó frekar á mótmælum við dómum og leiktöfum en Heimi virðist þykja línan hafa færst almennt og að tækling Grétars hafi heldur verðskuldað gult spjald.
„Eins og þetta er búið að vera síðan mótið byrjaði kom ekki á óvart að þetta væri rautt spjald. Á sama tíma í fyrra held ég að þetta hafi verið gult,“ segir Heimir við Vísi.
Tæklinguna má sjá að ofan.