Upp­gjörið og við­töl: FH - Þór/KA 0-4 | Ó­væntur stór­sigur gestanna

Dagur Lárusson skrifar
Leikmenn Þórs/KA fagna einu fjögurra marka Söndru Maríu Jessen gegn FH.
Leikmenn Þórs/KA fagna einu fjögurra marka Söndru Maríu Jessen gegn FH. vísir/hulda margrét

FH tók á móti Þór/KA í 2. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í leik sem búist var við að yrði gríðarlega jafn. Annað kom á daginn en gestirnir unnu ótrúlegan sigur. 

Í fyrsta leik liðanna í deildinni tapaði Þór/KA fyrir Val í leik sem endaði 3-1 á meðan FH vann 0-1 útisigur á Tindastól.

Það tók gestina að norðan ekki langan tíma að ná forystunni en það gerðist strax á 9. mínútu þegar boltinn barst til Söndru Maríu Jessen inn á teig sem kom honum í netið. Hún var síðan aftur á ferðinni á 27. mínútu en þá fékk hún boltann vinstra megin, með varnarmann í sér en það kom ekki að sök þar sem hún þrumað boltanum með vinstri fætinum og boltinn söng í netinu. Staðan 0-2 og þannig var hún í hálfleik.

FH-ingar komu öflugri til leiks í seinni hálfleikinn og sköpuðu sér nokkur góð færi sem nýttust þó ekki og það var því Þór/KA sem skoraði þriðja mark leiksins og aftur var það Sandra María sem skoraði og fullkomnaði þrennu sínu með skalla.

Hún skoraði síðan fjórða markið á 89. mínútu áður en hún fékk heiðursskiptingu. Lokatölur á Ásvöllum 0-4.

Atvik leiksins

Það var ef til vill þegar Sandra María skoraði þriðja markið og fullkomnaði þrennu sína. Á þeim tímapunkti var mun líklegra að FH myndi minnka muninn heldur en að Þór/KA myndi auka forystu sína en þá steig Sandra María fram og sagði hingað og ekki lengra. 

Stjörnunar og skúrkar

Skærasta stjarna þessa leiks var fyrirliði Þór/KA, Sandra María Jessen, sem skoraði fjögur mörk. Skúrkar leiksins voru engir sérstakir leikmenn FH-inga heldur liðið í heild sinni sem mætti einfaldlega ekki til leiks í fyrri hálfleik.

Dómararnir

Þeir áttu góðan dag og lítið við þá að sakast.

Stemningin og umgjörð

Það er heldur vandasamt að skrifa um þetta þar sem þetta var að sjálfsögðu ekki heimavöllur FH-inga heldur nágranna þeirra í Haukum. Það var nokkuð vel mætt í stúkuna þrátt fyrir mikinn vind. En umgjörðin var ekki nægilega góð, en vel skiljanlegt miðað við aðstæður.

Við treystum á hana og hún treystir á okkur

Jóhann Kristinnvísir/Hulda Margrét

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, var að vonum ánægður með sigur síns liðs gegn FH í dag.

„Mér fannst stelpurnar vera klárar í þetta í dag, dugnaðurinn og viljinn var frábær og það var æðislegt að fylgjast með þeim,“ byrjaði Jóhann að segja.

„Stemningin í hópnum var mjög góð fyrir leik og maður sá að þær voru allar staðráðnar í það að bæta fyrir síðasta leik og þær gerðu það svo sannarlega,“ hélt Jóhann áfram að segja.

Jóhann talaði síðan aðeins um Söndru Maríu Jessen.

„Hún skorar mörk, það er bara þannig. Hún er auðvitað frábær leikmaður en hún myndi auðvitað ekkert gera þetta ein, hún er í frábæru liði. Við treystum á hana og hún treystir á okkur,“ endaði Jóhann Kristinn Gunnarsson að segja.

Færanýtingin varð okkur að falli

Guðni Eiríksson.vísir/Hulda Margrét

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, vildi meina að færanýting liðsins hafi orðið liðinu að falli í dag er liðið tapaði fyrir Þór/KA.

„Það var svosem margt sem fór úrskeyðis en ég myndi segja að færanýtingin hafi verið slæm. Við fengum mikið af færum sem við nýttum ekki og á meðan skora þær fjögur mörk,“ byrjaði Guðni að segja.

„Fyrri hálfleikurinn var frekar dapur, þær voru betri en við í fyrri hálfleik og þær voru réttilega yfir í hálfleiknum. Við kannski settum leikinn vitlaust upp en við löguðum það, breyttum hlutunum aðeins og það var allt annað að sjá liðið í seinni hálfleiknum,“ hélt Guðni áfram að segja.

Guðni sagði að hann hafi tekið áhættu undir lokin og því hafi tapið verið svona stórt.

„Við tókum síðan áhættu undir lokin, fækkuðum í vörn og bættum við í sókn til þess að reyna að ná að minnka muninn. En í staðinn skora þær og því fór sem fór,“ endaði Guðni að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira