Erlent

Þúsundir hvöttu Sánchez til að segja ekki af sér

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Meira en tólf þúsund manns eru sagðit hafa tekið þátt.
Meira en tólf þúsund manns eru sagðit hafa tekið þátt. EPA

Þúsundir stuðningsmanna Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formanns Sósíalistaflokksins, komu saman á götum Madrídar í gær og hvöttu ráðherrann til þess að segja ekki af sér vegna meintrar spillingar sem eiginkona hans hefur verið sökuð um. 

Sánchez birti bréf til þjóðarinnar á X á miðvikudag eftir að rannsókn á fyrirtæki Begoña Gómez, eiginkonu hans, hófst. Hún er sökuð um að hafa gert tilraun til að nota eigin stöðu til hagsbóta. 

Í bréfinu sagði hann allar ásakanirnar rógburð og tilraun öfgahægrihópa til þess að steypa honum af stóli, en rannsókninni var hrundið af stað eftir að þrýstihópur, sem hefur tengsl við öfgahægrivæng stjórnmála á Spáni, lagði fram kvörtun á hendur hjónanna. 

Sánchez sagðist í bréfinu íhuga að segja af sér vegna þessa. Á morgun hyggst hann ávarpa þjóðina og greina frá ákvörðun sinni. 

Stuðningsmenn Sánchez frá öllum landshlutum Spánar flykktust í höfuðborgina þar sem samstöðufundur með forsætisráðherranum fór fram í gær. „Ekki gefast upp Pedro,“ og „Þú ert ekki einn,“ voru meðal slagorða sem sungin voru á fundinum.

BBC náði tali af nokkrum þátttakendum. Einn þeirra, Jose María Diez, opinber starfsmaður frá Valladolid, sagðist áhyggjufullur um að öfgahægriflokkar tækju yfir ef Sánchez segði af sér. „Það myndi hafa í för með sér skref aftur á bak fyrir réttindi okkar og frelsi,“ sagði hann við miðilinn. 

Sendinefnd miðstjórnarinnar í Madríd sagði allt að 12.500 manns hafa tekið þátt í fundinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×