Halmstad byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og eftir sex mínútur var liðið komið í 0-2. Marcus Olsson skoraði fyrsta markið á 5. mínútu og aðeins mínútu síðar bætti Mohammed Naeem öðru marki við.
Naeem var ekki hættur og skoraði annað mark sitt og þriðja mark Halmstad á 44. mínútu.
Gísli Eyjólfsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu. Tveimur mínútum síðar minnkaði Viktor Bergh muninn fyrir Varnamo. Fleiri urðu mörkin ekki og gestirnir fögnuðu góðum útisigri.
Gísli hefur komið inn á sem varamaður í síðustu þremur leikjum Halmstad. Hann kom til liðsins frá Breiðabliki í vetur en meiddist fyrir tímabilið. Miðjumaðurinn öflugi virðist nú vera kominn á fulla ferð með liði Halmstad sem hefur farið vel af stað á tímabilinu.
Birnir Snær Ingason, besti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili, sat allan tímann á varamannabekk Halmstad.
Halmstad er með tólf stig í 2. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Malmö sem hefur unnið alla sex leiki sína. Malmö rústaði AIK í dag, 5-0.