Skoðun

Synjunarvald gegn virkjunum

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Ég hef tekið það fram í skrifum mínum á fasbók, að dýrustu verðmæti þjóðarinnar fælust í þeim auðlindum náttúrunnar sem unnt væri að virkja til okuframleiðslu án þess að grípa þyrfti til kola eða olíu eins og nauðsynlegt er víðast hvar erlendis.

Í gær skrifaði ég á fasbók greinarstubb til stuðnings framboði Höllu Hrundar Logadóttur til embættis forseta Íslands. Tók ég þá fram að stuðningurinn væri „að því tilskildu að hún myndi ekki beita sér gegn virkjunum ef hún kæmist í stólinn.“ 

Ég féll svo frá þessum stuðningi, þegar ég taldi mig hafa fengið vitneskju um að þetta væri ekki rétt. Hefði ég þá fengið heimildir, sem ég taldi traustar fyrir því að hún væri andvíg virkjunum til orkuframleiðslu.

Nú hef ég fengið úr herbúðum hennar heimildir fyrir því að þessi skoðanaskipti mín stæðust ekki. Konan væri fylgjandi virkjunum á náttúruvænum orkugjöfum rétt eins og ég. Legg ég nú til við hana að taka afdráttarlaust fram opinberlega, að hún styðji náttúruvænar virkjanir á orku og muni ekki beita synjunarvaldi forseta á lög frá Alþingi um slíkar virkjanir ef til kæmi. Þetta ættu líka aðrir forsetaframbjóðendur að gera.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×