Innlent

Fallið frá ráðningarferli og Her­mann fylgir Sigurði Inga

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hermann Sæmundsson var ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu en fylgir Sigurði Inga Jóhannssyni yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytið og tekur við sem ráðuneytisstjóri þess.
Hermann Sæmundsson var ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu en fylgir Sigurði Inga Jóhannssyni yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytið og tekur við sem ráðuneytisstjóri þess. Stjórnarráðið

Fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og Hermann Sæmundsson, fráfarandi ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins, hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Staðan var aug­lýst þann 19. fe­brú­ar og bárust átta um­sókn­ir um stöðuna. Þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd var skipuð til undirbúnings skipunar í embættið í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.

Með flutn­ingi Her­manns hef­ur ráðherra fallið frá því ráðning­ar­ferli og nýtt sér heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að flytja annan embættismann í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Hermann tekur við stöðunni frá og með 1. maí 2024.

Embættismaður hokinn af reynslu 

Hermann hefur 28 ára reynslu af því að starfa í Stjórnarráðinu. Hann réðist fyrst til starfa í október 1996 sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu og var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002. 

Síðan þá hefur hann meðal annars starfað sem ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 2002 til 2004 og sem fulltrúi tveggja ráðuneyta í sendiráði Íslands í Brüssel frá 2004 og 2008. 

Hann hefur einnig starfað sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Hermann var skipaður ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu í maí 2023.

Hermann er fæddur árið 1965, tók stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1986, lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaraprófi frá Háskólanum í Árósum árið 1996 í stjórnsýslu- og stjórnmálafræði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×