Innlent

Verka­lýðs­bar­áttan aldrei verið jafn mikil­væg

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR. Vísir/Einar

Hátíðarhöld fara fram um allt land í dag vegna Verkalýðsdagsins 1. maí. Formaður VR segir verkalýðsbaráttuna sjaldan hafa verið jafn mikilvæga og í dag. 

Flestallir þéttbýliskjarnar landsins eru með einhverskonar dagskrá í dag. Kröfugöngur verða gengnar í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Selfossi og ræðuhöld víðar. Í Reykjavík er dagskráin hvað þéttust, fjölskylduhlaup og -skemmtun á Klambratúni, útifundur á Ingólfstorgi, verkalýðskaffi og fleira.

Verja réttindi sem hafa náðst

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir daginn í dag vera til þess að halda upp á þau réttindi sem hreyfingin hefur skilað fólki, sem og sýna samstöðu stéttarfélaganna til að halda vinnunni áfram.

„Ég held að sjaldan hefur verkalýðsbaráttan verið jafn mikilvæg og hún er í dag. Við sjáum hvernig staðan er bæði á húsnæðismarkaði og fleiri stöðum. Vaxtastig, þetta er bæði sóknarbarátta og varnarbarátta líka. Það er stöðugt verið að sækja að okkar réttindum. Við þurfum stöðugt að vera í því hlutverki að verja þau réttindi sem svo hafa náðst,“ segir Ragnar.

Hann segir baráttu verkalýðshreyfingarinnar í dag vera að miklu leyti varnarbarátta.

„Það er stöðugt verið að sækja að réttindum fólks. Þrengja að kjörum þess. Við erum að berjast við auðsöfnun sérhagsmunaafla, fjármálakerfið og fleira. Húsnæðismarkaðurinn hefur verið braskvæddur. Staðan á leigumarkaði er algjörlega hræðileg,“ segir Ragnar.

Stéttarfélögin mikilvæg

Hann telur að fólk sjái vel að einstaklingurinn er lítið afl gegn fyrirtækjum og sérhagsmunaöflum í réttindabaráttu.

„Það hefur aldrei veitt jafn mikið af sterkum oddi verkalýðshreyfingarinnar eins og það hefur í dag,“ segir Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×