Ef tap flokksins verður verulegt, gæti það grafið undan Rishi Sunak forsætisráðherra.
Alls verður kosið um 2.600 stöður í 107 héruðum. Tíu borgar- og sveitarstjóraembætti eru undir og 37 embætti lögreglustjóra á Englandi og Wales.
Guardian greinir frá því að mögulega verði kallað eftir því að Sunak segi af sér ef niðurstöðurnar verða verulega slæmar fyrir Íhaldsflokkinn og sér í lagi ef flokkurinn tapar sveitarstjórastólunum í West Midlands og Tees Valley.
Viðskiptaráðherrann Kemi Badenock, sem er meðal þeirra sem hafa verið nefndir til sögunnar sem næsti leiðtogi Íhaldsmanna, sagði hins vegar í samtali við Sky News í gær að Sunak nyti afdráttarlauss stuðnings ríkisstjórnarinnar.
Þá er möguleiki að ef Íhaldsflokknum gengur betur en kannanir hafa spáð, muni Sunak nýta tækifærið og boða til þingkosninga í sumar.