Orðrómar þess efnis höfðu verið á kreiki undanfarnar vikur en í gær var það staðfest að orðrómarnir væru á rökum reistir. Newey mun halda áfram að vinna að hönnun RB17, keppnisbíls Red Bull Racing fyrir tímabilið 2026 út þetta ár en er ekki lengur hluti af núverandi Formúlu 1 verkefni liðsins er snýr að þessu sem og næsta tímabili. Tímabilið 2026 verður það fyrsta þar sem keppt verður á nýrri kynslóð Formúlu 1 bíla. Það er verkefnið sem Newey vinnur nú að hjá Red Bull.
Brotthvarf Newey úr herbúðum Red Bull Racing eru fréttir af þeirri stærðargráðu að um mikil vatnaskil er talið að ræða fyrir liðið. Newey er af mörgum talinn besti hönnuður Formúlu 1 mótaraðarinnar frá upphafi og hefur komið að fimmtán meistaratitlum hjá þeim liðum sem hann hefur starfað hjá innan Formúlu 1.Nokkuð ljóst þykir þó að Bretinn knái ætli sér ekki að yfirgefa mótaröðina að fullu.
Telja má nokkuð öruggt að öll lið í Formúlu 1 hafi áhuga á því að fá hann til liðs við sig. Hins vegar eru aðeins örfá sem að munu hafa möguleika á því. Ítalski risinn Ferrari fer þar fremstur í flokki.
Sky Sports hefur heimildir fyrir því að forráðamenn Ferrari hafi nú þegar sett sig í samband við Newey, sem mun ekki þurfa að stíga frá mótaröðinni í ákveðin tíma eftir brotthvarf sitt frá Red Bull Racing, þar til að hann stígur aftur fæti þangað inn.
Hann gæti því tæknilega séð komið sér fyrir hjá öðru liði og lagt þar eitthvað af mörkum í hönnun 2026 bílsins hjá umræddu liði þó svo að nú þegar séu Formúlu 1 liðin komin á fullt í þeirri vinnu.