Skoðun

Nötur­legt ævi­kvöld

Elín Hirst skrifar

Nú í haust er ráðgert að stækka hjúkrunarheimilið Sóltún og bæta rúmlega 60 herbergjum við þau 92, sem fyrir eru á. Þetta á að gera með því að byggja nýja hæð ofan á húsið og lengja sumar álmurnar. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi, að íbúarnir sem eru bæði aldraðir og sjúkir, eiga að búa í húsinu á meðan á framkvæmdunum stendur. Meðal dvalartími sjúklinga í Sóltúni er 2 ár, sem er einmitt sá tími sem stækkun hússins mun taka.

Ljóst er að byggingaframkvæmdirnar munu skapa mikla vanlíðan meðal íbúanna, vegna hávaða, ónæðis og mengunar sem þeim mun fylgja. Fæst okkar sem hraust erum höfum áhuga á því að búa í húsnæði sem er í smíðum hvað þá sjúklingarnir í Sóltúni sem eru afar viðkvæmur hópur sem er að ljúka sínu ævikvöldi. Síðustu ævidagarnir verða því afar nöturlegir við þessar aðstæður, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Hópur aðstandenda hefur nú tekið sig saman um að standa vörð um velferð íbúa Sóltúns og hafa leitað til yfirvalda með kröfu um að tafarlaust verði hætt við þessar glórulausu framkvæmdir. Undirrituð á aldraðan föður sem býr í Sóltúni og óttast um velferð hans á komandi misserum.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður, fréttastjóri á RÚV, og fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×