Innlent

Sigu niður í Gretti sterka og dældu úr honum sjó

Árni Sæberg skrifar
Grettir sterki er kominn til Vestmannaeyja. Hér sést hann í Reykjavíkurhöfn.
Grettir sterki er kominn til Vestmannaeyja. Hér sést hann í Reykjavíkurhöfn. Aðsend

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út vegna dráttarbátsins Grettis sterka, sem lenti í vanda vegna bilunar, suðaustur af Vík, á tíunda tímanum í gærkvöldi. Fimm voru um borð í bátnum.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að áhöfn dráttarbátsins hafi haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í kjölfar þess að báturinn tók inn á sig sjó vegna bilunar. 

TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, og björgunarskipið Þór, frá Vestmannaeyjum, hafi haldið til móts við dráttarbátinn, sem hafi tekið stefnuna til Eyja þegar bilunarinnar varð vart. Þá hafi dráttarbáturinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum einnig verið beðinn um að halda á vettvang. 

Sigmenn af TF-GRO sigu niður í dráttarbátinn.Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafi verið komin að dráttarbátnum um klukkan 23:30 og tveir sigmenn þyrlunnar hafi farið um borð í dráttarbátinn með sjódælur og hafið að dæla sjó úr bátnum. Sigmennirnir hafi orðið eftir í dráttarbátnum á meðan þyrlan hélt til Vestmannaeyja til að taka eldsneyti. Björgunarskipið Þór frá Vestmannaeyjum hafi verið komið á vettvang um klukkan 00:30 og flutt fleiri dælur um borð.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að Grettir Sterki sé kominn heill á húfi til Vestmannaeyja ásamt Lóðsinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×