Skoðun

Ný nor­ræn stjórnar­skrá

Hrannar Björn Arnarsson og Ragnheiður Þórarinsdóttir skrifa

Á undanförnum misserum hefur Norðurlandaráð að eigin frumkvæði, staðið fyrir gríðarlega mikilvægri vinnu við að endurskoða grundvöll og innihald þess formlega samstarfs sem norrænu löndin átta eiga sín á milli. Norræna félagið á Íslandi fagnar því að Norðurlandaráð undirbúi nú á grundvelli þessarar vinnu formlegar tillögum um breytingar á Helsingforssamningnum, stjórnarskrá norræns samstarfs. Samningurinn hefur reynst afar vel en er barn síns tíma og það er löngu orðið tímabært að endurskoða hann. Norrænt samstarf þarf að vera í stöðugri endurnýjun og aðlaga sig að þeim breytingum sem verða innan Norðurlanda og utan, annars hnignar því smám saman og það veikist.

Norðurlönd - Samþættasta svæði veraldar?

Þá blasir það við að eigi sameiginleg framtíðarsýn ríkisstjórna Norðurlandanna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði veraldar árið 2030, að verða að veruleika, verður að gera róttækar breytingar á Helsingforssamningnum hið fyrsta og samhliða tryggja umtalvert aukin fjárframlög til sameiginlegra norrænna verkefna.

Að mati Norræna félagsins er mikilvægt að í nýrri stjórnarskrá norræns samstarfs verði eftirfarandi tryggt:

  1. Full aðild Grænlands, Færeyja og Álandseyja þegar þau svo kjósa.
  2. Að samstarfið taki til allra málasviða hins opinbera á hverjum tíma, einnig utanríkismála, samgöngumála, öryggis- og varnarmála og annarra málaflokka sem ekki falla þar undir í dag.
  3. Sameiginlegur norrænn ríkisborgararéttur.
  4. Örugg fjármögnun sameiginlegra verkefna, t.d. sem fast hlutfall landsframleiðslu.

Ísland vill meira norrænt samstarf!

Norræna félagið á Íslandi, þakkar íslenskum stjórnvöldum og íslenskum þingmönnum í Norðurlandaráði fyrir einarða afstöðu þeirra til mikilvægis norræns samstarfs og hvetur þau til dáða í baráttu þeirra fyrir endurskoðun Helsingforssamingsins og auknu fjármagni til norræns samstarfs.

Ný norræn stjórnarskrá er mikilvæg forsenda áframhaldandi og öflugara samstarfs norrænu landanna átta.

Hrannar Björn Arnarsson, formaður Norræna félagsins

Ragnheiður Þórarinsdóttir, varaformaður Norræna felagsins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×