Starfsmenn öryggisleitar á flugvellinum leggja að óbreyttu niður störf að morgni föstudags, þegar flestar flugferðir eru áætlaðar. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flugáætlun muni haldast óbreytt, enda margir farþegar að koma í tengiflugi annars staðar frá, einkum frá Bandaríkjunum, og hafi þegar farið í gegnum öryggisleit.
Í undirbúningi sé að bjóða farþegum, sem leggi af stað frá Íslandi, að færa til dagsetningar verði af vinnustöðvun á flugvellinum. Mikilvægt sé því að ferðlangar hafi réttar tengiliðaupplýsingar í bókun sinni.
Í sama streng tekur Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, sem segir að nú þegar sé farið að bjóða farþegum flugfélagsins að færa til dagsetningar á ferðum til að lágmarka þann ama sem kunni að skapast af aðgerðum á Keflavíkurflugvelli.
Fundað var í deilu Sameykis og FFR við Isavia fram á kvöld í gær og deiluaðilar mættu aftur til ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun. Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, segir samninga stranda á nokkrum atriðum sem ekki hafi tekist að koma áfram og því hafi verið ákveðið að hvíla viðræðurnar í gærkvöldi.