Forsetakosningar bjóða upp á dýrmætt tækifæri til að ræða hvernig þjóðfélag við viljum byggja. Framtíðarsýn fyrir land og þjóð er rædd út frá gildismati og hugmyndafræði sem eru að mestu hafin yfir flokkspólitík. Það er hollt fyrir okkur sem samfélag og sem einstaklinga að huga þeim gildum sem við viljum standa fyrir og finna leiðir til þess að tileinka okkur hugarfar og hegðun í daglegu lífi sem bera vott um þessi gildi.
Það er ánægjulegt að sjá frambjóðendur tala um kraftinn í íslensku þjóðinni og mörg þeirra tala um að sjálfbærni, virðing, réttlæti og friður verði þeirra leiðarljós í embætti. Það skiptir máli að talað sé um samfélag okkar á jákvæðan hátt og bent á það góða starf sem víða er unnið en við erum vanari hefðbundnari fréttum þar sem fjallað er um það sem betur má fara og um málefni sem valda óhug og ótta. Það skapar bjartsýni og gefur kraft þegar talað er af jákvæðni.
Tilfinningar á borð við von, samkennd og þakklæti eru líklegar til að vekja fólk til virkni, hvort sem er í sínu eigin lífi eða til þátttöku í samfélagsstarfi. Það skiptir því ekki síður máli að við sem einstaklingar tölum um okkur sjálf á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, en oft á tíðum er okkar innri gagnrýnandi ekki að hvetja okkur áfram til góðra verka heldur að benda á hvað við gætum gert betur og vara okkur við ímynduðum ógnum. Til þess að hjálpa okkur til að lifa af hefur hugur okkar tilhneigingu til þess að horfa á það sem hann telur ógna öryggi okkar og því tökum við frekar eftir neikvæðu áreiti en jákvæðu. En hugurinn hefur einnig möguleika til að svara þessari neikvæðisskekkju og skiptir þá máli að vera meðvituð um þessa tilhneigingu og finna leiðir til að draga úr henni. Rannsóknir sýna að með því að huga að okkar innri veröld, viðhorfum og gildismati og leitast frekar við að dvelja í þakklæti fyrir það sem er jákvætt í okkar lífi og sýna okkur og öðrum samkennd gagnvart því sem betur má fara erum við líklegri til að eiga innihaldsríkara og hamingjusamara líf.
Nýtum tækifærið sem forsetakosningarnar bjóða til að huga að því sem við viljum sjá dafna og blómstra hvort sem það er hjá okkur sjálfum eða í samfélaginu sem við byggjum.
Höfundur er eigandi Veglyndis.