Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Hún er sameinandi afl, þvert á pólitískt litróf. Hún gjörþekkir stjórnsýslu og löggjöf landsins og er vel að sér í alþjóðlegum stjórnmálum. Hún hefur talað fyrir friði og mannréttindum hvar sem hún kemur og sýnt frumkvæði við að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Hún kemur vel fyrir, með góða dómgreind, er víðlesin og vel að sér í ótal málefnum fyrr og nú, opin, fróðleiksfús og viðræðugóð. Hún ber virðingu fyrir fjölbreytileika og ólíkum skoðunum, óháð uppruna fólks og lífsskoðunum. Hún er lunkin í að sætta og miðla, setur lýðræði og jafnrétti á oddinn og er með mikla leiðtogahæfileika.

Hún leiddi þjóðina í gegn um heimsfaraldur og hefði ég enga aðra manneskju viljað hafa þar í stafni.

Hún er líttillát, hógvær og alþýðleg en stendur fast á sínu enda félagslegt réttlæti og jöfnuður fyrir okkur öll það sem brennur á henni, það sanna málefni sem hún hefur sett á dagskrá. Hún er fylgin sér og þykir vænt um náttúru landsins, sameiginlegar auðlindir okkar, manneskjur og málefni. Hún tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega, er áhugasöm um allt milli himins og jarðar og með eindæmum hæfileikarík.

Hún yrði áfram skýr rödd og sterk á alþjóðavettvangi, á hana er og verður hlustað. Hún veit að embætti forseta er áhrifaembætti en ekki valdaembætti og vill þar styðja við hamingju og velsæld þjóðarinnar, stuðla að því að við sem á Íslandi búum höfum sjálfstraust og trú að að við getum haft áhrif og gert gagn. Hún er nefnilega á því að fólk sé gott. Fyrst og fremst þá er hún óþrjótandi dugleg og myndi ekki skorta hugmyndir til góðra verka.

Hún heitir Katrín Jakobsdóttir og er kraftmikil forystukona sem ég vil sjá sem minn forseta.

Höfundur er kjósandi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×