Skoðun

Er ungum mönnum sama um sjófólk?

Kjartan Sveinn Guðmundsson skrifar

Í nýlegum pistli sparar Vala Hafstað, skáld og leiðsögumaður, ekki stóru orðin um hörundssára grunnskólakennara og fréttamenn, sem hann telur móðgast yfir smámunum. Þetta réttsýna fólk er víst svo sárlega móðgað að það sýður alveg upp úr hjá honum (leiðsögumanninum). Þrátt fyrir að skrifa um áhugavert efni með réttsýnina að leiðarljósi, þá fer Vala í óþarfa dúkkuleik með ímynduðum grunnskólakennurum og starfsfólki RÚV, sem hún segir að tilheyri „her“ sem „geldir íslenskuna“ og vilji „útrýma hinu hlutlausa karlkyni“.

Verð ég sjálfkrafa stimplaður „móðgaður“ fyrir að andmæla þessum hugmyndum?

Því miður er algengt að netverjar skapi sér ímyndaðan hóp af ímynduðum óvinum með ímyndaðar skoðanir, til þess að slást við sér til dægrastyttingar og úthellinga á alhæfingum og samsæriskenningum. Það er mannfjandsamlegt og dregur úr gildi annars venjulegra vangaveltna. Sá hópur sem vill „útrýma orðinu maður“ er ekki til. Ekki að ég sé mikið kurteisari, ég birti varla neitt nema í bræðiskasti gagnvart farsæld og velmegun blásaklausra möppudýra.

Vala skrifar um tvennt sem ég er til í að ritdeila um. Annarsvegar að þessi þróun íslenskrar tungu sé til hins verra og hins vegar að sú þróun á sér stað vegna samsæris frjálslyndra íslenskukennara og starfsmanna RÚV. Æðrulausa og ígrundaða lesönd: Hver annar á að þróa tungumálið? Ólæsir drengir? Valhöll? Klón af Jónasi Hallgrímssyni? Íslenskumælandi rímarar sem hafa hingað til bara skapað nýyrði um dóp eða kynlíf? Það er varla hægt að reiða sig á þá, á meðan gramm af grasi kostar 4k og bitches vilja jafna verkaskiptingu í heimilisrekstri!

Íslenska er ávallt í stöðnunarhættu og er nú að renna úr höndum unga fólksins, sem vilja frekar hafa Youtube Kids á ensku í litlu skítugu lúkunum sínum. Kannski mun karlkynið fá upprisu þegar Iphone-soðnu börnin byrja öll að reka hlöðuvörp um karlmennsku og hvernig vistarbandið bjó til geggjað þjarkarfar (e. Grindset). En hvernig er hægt að tryggja að þau hlöðuvarpi á góðri íslensku?

Kóranið kennir ímömum að gleðjast ef læti í börnum trufla helgihald, sömuleiðis má alveg vera gleðiefni ef eitthvert vill breyta íslenskunni. Það sýnir að ný kynslóð sé forvitin um hvernig gamalt tungumál getur passað í sinn raunveruleika. Er ekki eðlileg þróun í janfréttisparadís að nýjustu vendingar í tungumáli þess endurspegli jafnrétti kynjanna?

Atómskáldin prófuðu að yrkja óbundin ljóð, sjálfstæðissinnar fældust frá notkun dönskuslettna og fólk er byrjað að brúka ókynjað mál í dag. Þegar Bubbi bjó til Ísbjarnarblús, móðguðust ekki einhverjir? Hvar væri íslenska í dag ef fólk hefði ekki áhuga á að laga hana að sér? Er ekki einmitt tilraunastarfsemi og þróun það sem heldur henni á lífi?

Höfundur er bitch sem vill jafna verkaskiptingu í heimilisrekstri.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×